Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem veltir fyrir sér hvort ljósagríma gæti verið eitthvað fyrir hana.
Góðan dag,
mig langaði að forvitnast hvort að grímur með LED ljósum (LED light mask) gætu mögulega hjálpað við að halda rósroða í skefjum? Sérstaklega grímur sem bjóða upp á mismunandi ljósastillingar, rauða og bláa ljósameðferð.
Kveðja,
GH
Sæl.
LED ljósameðferð hefur verið notuð í langan tíma á sérfræðistofum húðlækna til að meðhöndla ýmis húðvandamál. Er þá notast við hluta af náttúrulegu ljósi, t.d blátt ljós til að meðhöndla bólusjúkdóma, rautt ljós til að örva kollagen og rautt/gult ljós til að flýta gróanda.
Rauða og gula ljósið gæti haft jákvæð áhrif á rósroða en áhrifin eru langt frá því að vera sambærileg og frá æðalasernum sem við notum almennt á sérfræðistofunum. Það er alltaf verið að reyna að hanna heimameðferðir fyrir margar húðmeðferðir sem eru veittar á sérfræðistofum.
Almennt tekst ekki vel til þar sem tækin sem eru notuð á meðferðarstofum eru um það bil sextíu sinnum öflugri en heimameðferðartækin.LED ljós flokkast undir „low laser therapy“ þar sem þetta er mjög orkulítil meðhöndlun og einmitt þess vegna hentar hún sem heimameðferð þar sem lítil hætta er á skaða í húðinni, en ég er hrædd um að árangurinn sé þá þar af leiðandi hverfandi.
Það er mikilvægt að skilja að það er alls ekki nóg að kaupa inn eitt lasertæki ef þú veist ekki hvernig þú átt að nota það. Klínískur árangur fer bæði eftir því hve gott tæki þú ert með í höndunum og einnig hve þjálfaður starfsmaðurinn er sem notar það.
Ég mæli því mun frekar með æðalasernum sem rósroðameðferð og gott er að taka nokkur skipti þétt í byrjun meðferðar en fara svo reglulega í viðhaldsmeðferð, til dæmis x1-2 á ári.
Gangi þér vel!
Kveðja,
Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Jennu Huld spurningu HÉR.