Hlutabréf í breska fyrirtækinu Burberry hækkuðu um 6% í kjölfar frétta um að útivistarrisinn Moncler sé að íhuga tilboð í tískuhúsið. Burberry hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ár, önnur merki hafa verið mun áberandi á markaðnum og eftirspurn eftir lúxusvöru hefur minnkað.
Franski miðillinn Miss Tweed sagði fyrst fréttir af væntanlegum kaupum á fyrirtækinu.
Ítalska útivistarmerkið sem þekktast er fyrir gæðamiklar dúnúlpur sem sjást oft hér á landi í ákveðnum bæjarfélögum, bæði hjá unglingum og fullorðnu fólki. Moncler er einnig eigandi Stone Island sem hefur verið vinsælt hjá sama markhópi.
Mikil von er bundin við útivistarmerkin þessa stundina en fyrr á árinu var tilkynnt um að franski fatahönnuðurinn Haider Ackermann yrði nýr listrænn stjórnandi Canada Goose. Þá er sagt að markmið þeirra sé að reyna að ná sama árangri og Moncler hefur náð að staðsetja sig sem lúxusútivistarvöru á markaðnum.
LVMH-samsteypan á hlut í Moncler og líka meðal annars í Louis Vuitton, Christian Dior, Fendi og Celine.