Það þykir ekki slæmt að klæðast franska tískuhúsinu Chanel frá toppi til táar en það gerði tónlistarkonan Laufey Lín Jónsdóttir á frumsýningu Wicked á dögunum. Kvöldið var viðburðarríkt og varði hún hluta kvölds með einni frægustu söngkonu heims, Ariönu Grande.
Laufey klæddist ljósbleikum og skreyttum samfestingi frá Chanel. Samfestingurinn var skreyttur steinum, kristöllum og perluskreyttu kögri og var hún í svörtum skóm frá sama merki. Einnig var hún með stóra svarta slaufu í hárinu. Samfestingurinn er úr hátískulínu (e. haute couture) merkisins fyrir árið 2024/2025.
Orðin koma úr frönsku og þýða í raun hátíska. Hátíska á rætur sínar að rekja aftur til 16. aldar og upphaflega átti hún við sérstaka flík, oft kallað korselett, sem var sérsaumuð á eigandann. Á nítjándu öld varð París miðja hátískunnar og voru fötin gerð úr hágæðaefnum og saumuð af þeim allra hæfustu.
Núna er hátíska verndað starfsheiti og þurfa tískuhús að uppfylla ströng skilyrði til að verða „alvöru hátískuhús“. Þetta var gert til að geta haldið uppi þessu einstaka handverki sem hátískufötin eru. Þá er sérstök nefnd í Frakklandi sem heldur úti lista yfir þau hús sem er uppfærður ár hvert. Til að verða hluti af listanum þarf meðal annars að hanna fötin fyrir hvern viðskiptavin fyrir sig, vera með saumastofu í París og að minnsta kosti fimmtán manns í fullu starfi og að kynna línu með að minnsta kosti fimmtíu nýjum flíkum, tvisvar á ári, í janúar og í júlí.
Þau tískuhús sem eru meðal annars á listanum yfir gild hátískuhús núna eru Chanel, Dior, Maison Margiela, Alexandre Vauthier og Givenchy.