Fyrsta íslenska hlaupafatamerkið, Vecct, opnar tímabundna verslun í Útilíf í Kringlunni fyrir hátíðarnar. Verslunin verður opin frá 5.-24. desember. Með verslunarupplifun og viðburðum sem spegla myndheim og gildi Vecct gefst viðskiptavinum kostur á að versla vörurnar í raunheimum í fyrsta skipti.
Guðmundur Magnússon fatahönnuður er einn af þremur á bak við merkið. Ásamt honum eru þeir Aron Guan grafískur hönnuður og Jóhann Skúlason tölvunarfræðingur og myndlistarmaður. Vecct var stofnað fyrst fyrir um ári síðan eða fljótlega eftir að Guðmundur var nýfluttur heim frá ítölsku tískuborginni Mílanó þar sem hann starfaði. Merkið hlaut hvatningarverðlaun Indriðaverðlaunanna sem veitt voru af Fatahönnunarfélagi Íslands á dögunum.
„Ég útskrifaðist úr Listaháskólanum árið 2021 og flutti í kjölfarið til Mílanó til að fara í starfsnám sem varð síðan að starfi. Ég vann þar í litlu teymi hjá merkinu Alyx þar sem við vorum tveir til þrír að hanna þar. Við hönnuðum stórar línur og sýndum á tískuvikunni í Mílanó. Til hliðar vorum við að gera hliðarverkefni með Moncler, Nike og fatnað fyrir tónlistarlistamanninn The Weeknd,“ segir Guðmundur. Á þessum tíma í Mílanó öðlaðist hann dýrmæta reynslu í hönnun á karlmannsfatnaði, fylgihlutum og höttum.
Er ekki öðruvísi að hanna íþróttaföt? „Jú, ég myndi segja það. Þó að ég hafi unnið hjá tískumerki þá var mikið af fatnaðinum það með vísun í íþrótta- og útivistarfatnað svo það eru einhver líkindi. En virkni og afköst eru ekki í forgangi þar svo jú það er öðruvísi.“
Guðmundur fékk svokallaða hlaupabakteríu þegar hann bjó í Mílanó. „Ég var orðinn frekar heltekinn af hlaupaíþróttinni utan vinnu. Ég hef lengi haft mikinn áhuga á íþróttafatnaði og hvernig hreyfing spilar inn í fatnað og hvernig áhrif hún hefur á fötin sjálf,“ segir hann.
„Eftir að hafa unnið í tískufatnaði í langan tíma þá fann ég að það var mjög mikið frelsi og allar ákvarðanir eru teknar út frá því hvað lítur vel út og hvað þykir flott. Fyrir mitt leyti þá var það orðið pínu þreytandi til lengdar og mig langaði að fara að gera eitthvað með tilgangi.“
Nýtirðu sköpunarkraftinn betur þegar þú hefur ramma? „Mín sköpunargleði kemur þar fram finnst mér en það er auðvitað persónubundið eftir hönnuðum. Maður hugsar það kannski að það að hanna leggings sé minna listrænna en að gera hátískukjól en ég er ekki sammála því. Buxurnar þurfa að virka en þegar maður hefur minna svigrúm til að leika sér og reyna að gera þetta aðlaðandi fyrir viðskiptavinina þá er það áskorun sem heillar mig.“
Vecct hefur vakið athygli fyrir frumlega markaðssetningu. „Við byrjuðum fyrst að vinna í merkinu fyrir um ári síðan en fórum með það í loftið nú í sumar. Þá opnuðum við ákveðinn klúbb fyrir meðlimi, kynntum vörur sem voru væntanlegar og leyfðum fólki að versla inneign hjá okkur. Því fylgdu fríðindi eins og afsláttur og sérstakar vörur. Við gáfum svo út fyrstu vörurnar í ágúst.“
Er þetta þá meira en íþróttamerki? „Já, algjörlega. Við höfum verið að standa fyrir hlaupaæfingum í vetur sem hafa verið fyrir okkar vini og kunningja og er ætlunin að stækka það meira. Við erum núna að vinna með plötusnúðum og erum að gera okkar útgáfu af lagalistum fyrir hlaupara sem hannaðir eru með skrefatíðni fólks í huga. Þetta eru í raun listar sem henta mismunandi hlaupastílum. Við erum að leggja meira upp úr og gera meira en að selja bara föt, heldur búa til heim, samfélag og upplifun í kringum það.“
Hvernig hafa viðtökurnar verið? „Mjög góðar en við höfum fundið að það hefur vantað smá upp á að vera með tengingu við kúnnann en erum fegnir því að geta gert það í verslun Útilífs. Nú getum við formlega fagnað þessu og fólk getur mátað og svona.“
Fatnaðurinn frá Vecct er framleiddur í Kína en einn af eigendum merkisins, Aron, er með fjölskyldutengingar þar í landi. Það hefur komið sér vel að sögn Guðmundar. „Kínverjar eru mjög góðir í svona tæknilegu og þegar kemur að nútímalegri fatnaði þá standa þeir fremstir.“
Hann segir markmið framtíðarinnar að fara til útlanda með merkið. „Við viljum geta boðið upp á vöru út fyrir Ísland sem á rétt á sér á alþjóðamarkaði. Ég tel við getum haft eitthvað að segja í alþjóðahlaupasenunni og getum komið Íslandi á kortið í hlaupafatnaði. Hingað til höfum við verið þekkt fyrir útivistarfatnað og hönnunarvöru en við ætlum fyrst að einblína á íslenskan markað til að koma öllum verkferlum og svona af stað en svo stefnum við út.“