Það sem einkennir nýja árið fyrir utan metnaðarfull markmið og nokkra daga af hollu mataræði eru útsölurnar. Útsölurnar hefjast strax á nýju ári þegar reynt er að koma jóla- og hávetrarvörunni út. Á þessum tíma er bæði hægt að gera mjög góð og mjög slæm kaup. Það er alltaf best að leita eftir tímalausum fatnaði á útsölu og einnig vörum sem þú hefur haft augastað á lengi. Oft er betra að sækja í verslanir með dýrari vörum. Afslátturinn er stundum meiri og þar eru gæðaflíkur sem munu endast næstu árin.
Áður en gengið er að afgreiðslukassanum er sniðugt að spyrja sjálfan sig þessara spurninga:
Er þetta fatamerki sem mér líkar við? Það er algengt að missa sig í útsölukaupum og ætla að kaupa eitthvað nýtt sem manni hefur aldrei dottið í hug áður. Slæm hugmynd. Sækjum frekar í verslanirnar sem við erum hrifin af og látum ekki blekkjast af hárri afsláttarprósentu. Það er líklegra að þú endir með föt sem verða lengi í fataskápnum ef þú heldur þig við þitt uppáhald.
Áttu nánast eins flík í fataskápnum? Taktu eftir því sem þig virkilega vantar og fjárfestu eftir því. Ef það er nánast eins eða svipuð flík sem þjónar sama tilgangi þá þarftu ekki aðra. Farðu yfir fataskápinn áður en þú verslar á útsölum. Ef flíkin hefur ekki verið í notkun síðasta árið þá er best að gefa hana áfram.
Er þetta þinn stíll? Það er sniðugt að hugsa út í það hvernig föt eru í notkun dagsdaglega hjá þér. Ef grænn er ekki þinn litur og hefur aldrei verið þá er ólíklegt að græna satínskyrtan verði dregin fram þó hún hafi verið á 70% afslætti. Finndu frekar flíkur sem ganga upp fyrir þig og þinn stíl.
Myndirðu kaupa þetta fullu verði? Þetta er líklega ein mikilvægasta spurningin. Ertu að kaupa hlutinn því hann er á svo góðu verði eða langar þig virkilega í þetta? Það kallast ekki að gera góð kaup ef hluturinn verður aldrei notaður. Bestu kaupin eiga aðeins við um það sem þú notar aftur og aftur.
Ertu virkilega hrifin/n? Það á að vera gaman að versla svo ef þér líður ekki vel með kaupin hafa þau líklega ekki verið góð. Ef þú gengur brosandi út úr búðinni þá hefurðu sigrað.
Fer þetta fljótt úr tísku? Tímalausar flíkur, tímalausar flíkur, tímalausar flíkur. Þetta þarf nánast að stimpla inn í höfuðið áður en haldið er af stað á útsölurnar.
Hvernig myndirðu nota flíkina? Það er gott að ímynda sér þrjár aðrar flíkur sem eru nú þegar í fataskápnum sem maður myndi nota hana við. Ekki versla á útsölu ef þig vantar til dæmis ákveðnar buxur við eitthvað. Þessi mistök geta gert það að verkum að útsöluvaran verður aldrei tekin úr fataskápnum.