Fatastíllinn getur breyst með aldrinum og áherslurnar orðnar aðrar. Áhuginn á tísku eða útliti dvínar þó ekki og verður jafn vel enn meiri. En þó eru nokkur góð ráð sem er gott að hafa í huga.
Tískubylgjur eru auðvitað fyrir alla en með aldrinum lærir fólk betur á það sem klæðir það. Litirnir, efnin og sniðin eru valin með notkunargildið og þægindin í huga. Það er best að einbeita sér að klassísku sniði, dragtarjökkum og buxum til dæmis og fríska upp á heildarútlitið með litríkri silkiskyrtu undir.
Þegar bæta á við nýrri flík í fataskápinn getur verið áhrifaríkara að velja flík með skemmtilegri áferð í stað áberandi mynsturs. Þessu fylgir meiri elegans og auðvelt er að klæða þessar flíkur inn í hversdaginn eða þegar fínu tilefnin eiga við.
Kasmír- eða merínóullin er gæðamikil og það sést vel á fötunum. Það þarf ekki að sitja uppi með fullan fataskáp af prjónapeysum heldur er skynsamlegra að vera með færri og gæðameiri.
Það lærist með tímanum að gæðaefni skipta miklu máli. Silkiskyrtu úr satínefni má nota við hversdagslegar buxur og gengur hún einnig vel upp við pils.
Stílhrein og klassísk taska getur gengið við allt og við öll tilefni líka. Taskan skiptir máli fyrir heildarútlitið og þó taskan sé stílhrein þá þýðir það ekki að hún sé óspennandi. Mínimalísk taska í svörtu, dökkbrúnu eða ljósbrúnu ætti að eiga heima í fataskáp allra. Rétta taskan passar jafn vel við gallabuxur og svartan kjól.