Á tískusýningu franska tískuhússins Balenciaga fyrir um það bil ári voru buxur sem höfðu ekki sést í nokkur ár í tískuheiminum. Þröngar gallabuxur. Ekki nóg með það heldur voru rassvasarnir á sumum buxunum skreyttir glitrandi similíusteinum með stóru B. Þessar buxur endurvöktu minningar um gallabuxnamerki sem lítið hefur farið fyrir undanfarin ár, True Religion. Demna Gvasalia, listrænn hönnuður Balenciaga, hratt með þessu nýrri bylgju af stað eins og oft áður.
True Religion var stofnað í Bandaríkjunum árið 2002 og eru höfuðstöðvar fyrirtækisins í Kaliforníu. Merkið er þekktast fyrir gallabuxurnar en selur einnig annan fatnað eins og gallajakka, boli, föt úr jogging-efni og náttföt fyrir konur, karla og börn. Gallabuxurnar frá merkinu hafa oft og tíðum verið tengdar við ameríska kúrekalífsstílinn en aðaleinkenni buxnanna er skeifa á rassvösunum sem saumuð er með þykkum saum. Merkið varð strax vinsælt en á þeim tíma er merkið var stofnað hafði orðið mikil sprenging í hönnunargallabuxum. Söngkonan Fergie úr hljómsveitinni Black Eyed Peas söng meira að segja um buxurnar í laginu My Humps.
Vinsældir merkisins dvínuðu mikið í kringum árið 2010 og var útlitið svart fyrir fyrirtækið um tíma. Nú virðist hins vegar hafa orðið viðsnúningur enda mikið nostalgíuæði hjá yngri kynslóðinni. Áhrifavaldar á samfélagsmiðlunum TikTok og Instagram hafa einnig fjallað mikið um buxurnar.
Stórleikarinn Timothée Chalamet, sem þekktur er fyrir einstakan og persónulegan fatastíl, hefur undanfarið verið myndaður í gallabuxum frá True Religion. Hann mætti meðal annars á frumsýningu myndarinnar The Complete Unknown á Ítalíu klæddur ítölsku fánalitunum í jakka og buxum í stíl frá merkinu. Fötin voru úr svörtu og rauðu gallaefni með hvítum saumum.
Í stíl var hann með grænan klút um hálsinn. Þetta þykir hafa ýtt undir enn frekari áhuga unga fólksins á merkinu.
Hér á landi hafa buxurnar fengist í versluninni Wasteland í miðbæ Reykjavíkur sem selur notuð föt.
„Það er mikið spurst fyrir um True Religion-buxur hjá mér og hefur verið seinustu tvö ár. Vinsældirnar virðast ekki fara neitt niður á við, þær halda bara áfram að vera einar af
vinsælustu buxunum hjá mér,“ segir Rakel Unnur Thorlacius eigandi Wasteland. Hún bíður nú eftir annarri sendingu til landsins.
Hún segir buxurnar vinsælastar hjá unglingum á aldrinum 15-20 ára.
„Ég myndi segja að Gen Z-kynslóðin hafi mjög mikinn áhuga á tískunni í kringum árið 2000 núna. Þá voru True Religion-buxur einmitt í tísku og þess vegna eru þær svona eftirsóttar aftur. Tískan fer alltaf í hringi.“
Þó að fyrirtækið sé enn í því að framleiða buxur í svipuðum stíl og áður er jafnvel vinsælla að kaupa þær notaðar. Því fylgja einungis kostir þar sem buxurnar eru ódýrari en nýjar og ýta undir endurnýtingu fatnaðar.
Nýjar buxur frá True Religion kosta tæpar 40 þúsund krónur í dag. En svo er spurning hversu lengi athygli unga fólksins á tískubylgjunni endist og þá hvort fyrirtækið nái að halda í vinsældirnar eða detti jafn hratt úr tísku og það kom inn.