Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína á Alþingi á dögunum. Það gerði hún klædd aðsniðnum kjól frá breska fatamerkinu Fold. Kjóllinn var kvenlegur og aðsniðinn í vetrarhvítum lit eins og hann heitir á heimasíðu merkisins.
Eaton-kjóllinn frá Fold er klassískt snið frá merkinu og hentar vel fyrir fínni tilefni. Efnið er ofið ítalskt tweed-efni með glitrandi þráðum sem gefur efninu fallegan glans. Ermarnar eru í olnbogasídd og pilsið er sniðið frá mitti sem leggur áherslu á kvenlegu línurnar.
Efnasamsetning kjólsins er 47% bómull, 35% pólýester, 12% akríl og 6% viskós. Kjóllinn kostar 129.100 krónur. Heimasíða Fold sendir til Íslands en þá má gera ráð fyrir því að verðið hækki þegar virðisaukaskatturinn bætist við.
Fold var stofnað af Polly McMaster og var ætlað konum í atvinnulífinu. McMaster starfaði áður í „karllægum geira“ eins og hún orðar það á heimasíðu merkisins, og vantaði fatnað í vinnuna. Eini „vinnufatnaðurinn“ sem til var þá var heldur sniðlaus og gerði lítið fyrir hana að hennar mati. Hún kom auga á gat í markaðnum og stofnaði Fold.
Verslun Fold er staðsett við götuna 28 Cadogan Place í Belgravia-hverfi Lundúna.
Merkið er þekkt fyrir kvenleg, stílhrein og mjög klæðileg föt. Þau bjóða upp á fallega kjóla, pils, dragtir, fylgihluti, skó og í raun allt sem þarf í fataskápinn.
Það er afar líklegt að Kristrún eigi eða muni bæta við fötum frá Fold nú þegar hún þarf á fáguðum fatnaði að halda.