Vorið er komið hjá Sigurði Inga Jóhannssyni þingmanni sem mætti frísklegur á Alþingi í umræður um stefnuræðu forsætisráðherra á dögunum. Hvorki svartur né dökkblár litur kom til sögunnar í fatnaði þingmannsins.
Sigurður Ingi klæddist ljósgrábláum, köflóttum jakkafötum. Köflótta mynstrið var í smærra lagi sem er oft notað þegar fínni viðburðir eiga sér stað. Allavega hjá yfirstéttar Bretum sem vita sitt hvað um köflótt jakkaföt.
Liturinn á bindinu kemur á óvart en það var í ljóspastelgrænum lit úr örlítið glansandi efni. Liturinn fór vel með litnum á jakkafötunum og augljóst að samsetningin var útpæld. Skyrta Sigurðar var hvít á litinn.
Hárgreiðsla Sigurðar hefur einnig vakið mikla athygli en hárið var vatnsgreitt aftur. Þetta er útlit sem hann hefur ekki skartað opinberlega áður en augljóst að hann ætli að láta til sín taka á árinu, bæði í stjórnarandstöðu og fatastíl.