Alma Möller heilbrigðisráðherra er hrifin af vínrauða litnum en hún hefur valið að klæðast litnum frá toppi til táar á ýmsum viðburðum undanfarna mánuði. Við þingsetninguna varð engin breyting á og klæddist hún kvenlegri, vínrauðri kápu, með hanska, skó og tösku allt í sama litnum. Vínrauðir skórnir eru dömulegir og skreyttir stórum perlum.
Það hefur verið vinsælt undanfarin ár að kjósa fatnað í einum lit. Svartur hefur vikið frá þegar reynt er að ná fram þessu útliti og aðrir litir eins og einmitt vínrauðir eða ljósbrúnir litatónar tekið yfir. Þegar birtir til er kjörið að leika þetta eftir með ljósari og sumarlegri tónum eins og bleikum eða smjörgulum.
Kápa Ölmu er frá breska fatamerkinu Fold sem sérhæfir sig í kvenlegum, stílhreinum og vel sniðnum fötum fyrir hina uppteknu konu. Kápa Ölmu er úr 75% ull og 25% pólýamide. Sniðið er tekið inn um mittið og pilsið í A-sniði og nær rétt fyrir neðan hné. Kápan kostar tæpar 163 þúsund krónur á heimasíðu Fold.
Smartland greindi frá því að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hafi klæðst kjól frá merkinu þegar hún flutti stefnuræðuna á Alþingi. Spurningin er hvort að Alma hafi gefið Kristrúnu góð tískuráð við þingsetninguna?