„Ég myndi lýsa fatastílnum mínum sem síbreytilegum. Mér finnst mjög leiðinlegt að vera föst í einhverjum ákveðnum stíl eða karakter og ég elska að koma sjálfri mér á óvart með klikkuðum litum eða formum. Ég er samt algjörlega street-based og hef alltaf verið það,“ segir Guðrún Kara Ingudóttir, leikkona og verslunarstjóri.
Hún segir sitt helsta hlutverk í lífinu sé að vera mamma, sonar síns og hunds, og taki þægindin fram yfir allt annað.
„Flesta daga vel ég einhverja mjög trausta flík og púsla saman fötunum í kringum hana. Það getur verið gott pils eða góð ullarpeysa. Í svolítinn tíma núna hef ég verið að vinna með stór og víð snið en svo kemur líka alveg fyrir að ég fari í kjól. Það er í raun ekki hægt að reikna mig út, sko.“
Guðrún er verslunarstjóri í Húrra í Kringlunni og hefur starfið mikil áhrif á klæðaburð hennar. „Ég vinn náttúrulega í flottustu fatabúð landsins og er vanalega í fötum frá þeim. Annars hef ég algjört frelsi til þess að klæða mig eins og ég vil en maður getur ekki annað en verið frá toppi til táar í merkjum frá Húrra, það er bara þannig.“
Hvernig klæðirðu þig þegar þú ert að fara eitthvað fínt?
„Þá fer ég oftast í víðar, þægilegar buxur og einhvern góðan þröngan topp. Ég para það svo saman við Isabel Marant-hælana mína.“
Fyrir hverju fellur þú oftast?
„Ég fell langoftast fyrir einhverjum klikkuðum litum eða skrýtnum flíkum. Þykkar og góðar peysur eru einhver sérstakur veikleiki en jakkar og skór eru líka þarna í topp sætunum.“
Bestu fatakaupin?
„Uppáhaldsflíkin mín verða að vera nýju Margiela-buxurnar sem ég fann í hjálpræðishernum í Köben um daginn.“
En verstu fatakaupin?
„Verstu fatakaupin hljóta að vera rándýrir Jordan 4s sem ég keypti of litla í einhverri brjóstaþoku og hef aldrei geta notað.“
Uppáhaldsskórnir eða fylgihlutirnir?
„Ég á mjög marga uppáhaldsskó en í efsta sæti eru Adidas Gazelle x Gucci skórnir mínir. Isabel Marant hælarnir mínir koma sterkir í annað sætið og svo myndi ég örugglega segja að hvítu Shox-arnir mínir lendi í þriðja sæti. Svo er ég með mikið töskublæti og er núna að rótera nokkrum góðum töskum sem ég stal af mömmu.“
Áttu þér uppáhaldsmerki/búðir til að versla í?
„Húrra Reykjavík er náttúrulega uppáhaldsbúðin mín hérna heima en þegar ég fer erlendis finnst mér langbest að versla í stórverslunum sem selja mörg mismunandi merki. Mér finnst líka ótrúlega gaman að fara í góðar og fínar vintage-búðir og versla þar. Það er eitthvað við það að eiga ekki nákvæmlega sama og allir aðrir sem heillar mig.“
Áttu þér uppáhaldsliti?
„Uppáhaldslitir eru alltaf dökkblár, khaki-brúnn og bleikur. Annars hef ég verið að færast eitthvað yfir í svart, kannski er það aldurinn en það er eitthvað við bara svart lúkk frá toppi til táar sem er svo gott.“
Hvað er á óskalistanum þínum?
„Á óskalistanum er einhver góð ný ullarkápa. Ég á eina svarta sem dregur öll heimsins hár í sig og er því brýn nauðsyn á að finna nýja. Mig langar líka mjög mikið í nýju Salomon x Sandy Liang-týpuna, þeir eru trylltir.“
Hún segist fá mikinn innblástur frá fólkinu í kringum sig.
„Mamma hefur alltaf verið mín helsta tískufyrirmynd, enda er hún tískudrottning sjálf, en já, ég myndi bara segja fólkið í kringum mig frá degi til dags og þá aðallega unga fólkið í Kringlunni. Það fer svo bara alltaf eftir því í hvernig skapi ég er á morgnana, hvernig ég púsla saman fittinu.“