Íslenska leikkonan Elín Hall var stórglæsileg á rauða dreglinum á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín (Berlinale) á mánudag.
Um miðjan desember var greint frá því að Elín hefði verið valin í Shooting Stars-hópinn, en á hverju ári velja samtökin European Film Promotion (EFP) tíu efnilega leikara og leikkonur úr hópi aðildarsamtakanna, sem hafa vakið sérstaka athygli í heimalandi sínu og á alþjóðavettvangi.
Hópurinn var kynntur við hátíðlega athöfn á mánudagskvöldið. Þýska leikkonan Thelma Buabeng kynnti leikarana fyrir gestum hátíðarinnar.
Meðal annarra í Shooting Stars-hópnum eru þau Marina Makris frá Kýpur, Besir Zeciri frá Danmörku, Maarja Johanna Mägi frá Eistlandi og Devrim Lingnau frá Þýskalandi.
Elín vakti mikla athygli í glæsilegum, hvítum kjól frá franska tískuhúsinu Chanel. Leikkonan var einnig í skóm og með tösku og skartgripi frá tískuhúsinu.
Elín hefur vakið mikla athygli á síðustu misserum, nú síðast í þáttaröðinni Vigdísi og kvikmyndinni Ljósbroti, í leikstjórn Rúnars Rúnarssonar, sem var opnunarmynd Un Certain Regard á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2024. Elín klæddist einnig glæsilegri hönnun frá Chanel í Cannes.