Egill Sæbjörnsson listamaður hefur sett á markað ilmvatn sem heitir „Out of Controll“ og er til sölu í versluninni MDC í Berlín.
„Þetta er ilmvatn sem ég þróaði árið 2017 í kringum það þegar ég sýndi á Feneyjatvíæringnum. MDC er verslun sem selur vandaðar vörur í Berlín og við erum að prófa að vinna saman. Það er mjög skemmtilegt,“ segir Egill í samtali við Morgunblaðið en hann þróaði ilmvatnið í samstarfi við þýska ilmhönnuðinn Geza Schön, sem er þekktur fyrir ilmvatnið Escentric Molecules 01 og hefur starfað með þekktum alþjóðlegum merkjum á borð við Diesel og FCUK.
Á heimasíðu verslunarinnar segir að ilmvatnið sé framleitt af tröllunum Ugh og Böögrum í samvinnu við Egil og Schön en þar er einnig tekið fram að þó að þetta sé „listaverkefni“ þá hafi ilmvatnið engu að síður frábæran ilm. Umrædd tröll eru áberandi í listsköpun Egils en íslenska heitið þeirra er Úr og Búr. Nýlega kom til dæmis út bókin Þegar Egill hitti tröllin Úr og Búr og fór með þeim til Feneyja.