SAG-verðlaunin (Screen Actors Guild) voru haldin hátíðleg í Los Angeles í gærkvöld. Verðlaunin eru þau síðustu í röð verðlaunahátíðarinnar áður en Óskarsverðlaunin verða veitt þann 2. mars næstkomandi. Helstu stjörnur Hollywood létu sjá sig á rauða dreglinum í sínu fínasta pússi og voru nokkrir sem stóðu upp úr.
Stórleikarinn Timothée Chalamet stóð upp úr í leðurjakka, leðurbuxum og í skærgrænni satínskyrtu frá ameríska fatamerkinu Chrome Hearts. Sólgleraugun voru einnig frá Chrome Hearts. Um hálsinn var hann með Féline de Cartier-hálsmenaúr sem skartar hvorki meira né minna 78 demöntum og er úr 18 karata gulli. Úrið er frá árinu 2005 úr Cartier Libre-línunni. Undanfarna mánuði hefur hann farið allt aðrar leiðir í fatavali á viðburðum og er oftar en ekki best klæddi gesturinn.
Ariana Grande var söm við sig í ljósbleikum síðkjól og sýndi berar axlir. Pamela Anderson klæddist hvítum Dior-kjól og var laus við allan farða eins og frægt er orðið.