Hinn 26 ára gamli Luigi Mangione, sem hefur verið ákærður fyrir morð og hryðjuverk á Brian Thompson, forstjóra stærsta sjúkratryggingafyrirtækis Bandaríkjanna, hefur vakið athygli fyrir annað en ódæðisverkin sem hann er ákærður fyrir, en það er fatastíllinn.
Mangione mætti í dómssal í New York á dögunum klæddur kamelbrúnum mokkasínum sem fólk á samfélagsmiðlum er farið að kalla skó sumarsins.
Þó að fæstir vilji vera í hans sporum virðist sem marga dreymi um skóna. Google-leit að „mokkasínum Luigi Mangione“ fjórtánfaldaðist minna en sólarhring eftir að fyrstu myndir af honum birtust á fréttamiðlum. Einnig jókst leit að „fatnaði Luigi Mangione“ um 350 prósent.
Þetta er þó ekki í fyrsta skiptið sem fatnaður Mangione vekur athygli. Í desember klæddist hann vínrauðri peysu yfir hvíta skyrtu sem setti samfélagsmiðla á hliðina.
Málið tók óvænta stefnu og hefur Mangione eignast marga aðdáendur sem hafa gengið það langt að framleiða fatnað og fylgihluti til styrktar honum, merkt „Frelsum Luigi.“ Sumir hafa stimplað hann sem alþýðuhetju og þykir hann vera myndarlegur og vel til fara.
Tískuáhrifin hans hófust fljótt eftir að myndir úr eftirlitsmyndavélum daginn sem morðið átti sér stað sýndu Mangione í dökkgrænum jakka með áfastri grárri hettu. Jakkinn er frá ameríska fatamerkinu Levi's og hefur rokið úr hillum verslana. Sem dæmi má taka að í vefverslun amerísku stórverslunarinnar Macy's seldust yfir 700 eintök af jakkanum innan tveggja sólarhringa eftir að jakkaæðið fór af stað.
Það er spurning hvað veldur því að ungur maður sem ákærður er fyrir morð er hampað fyrir útlit og klæðaburð en fróðlegt verður að sjá hvort tískuhús heimsins muni sjá aukningu í sölu á brúnum mokkasínum.