Heiða Björg Hilmisdóttir, nýkjörinn borgarstjóri Reykjavíkur, klæddist dökkbláum gallakjól á blaðamannafundi oddvita Samfylkingar, Pírata, Sósíalista, Flokks fólksins og Vinstri grænna í Ráðhúsi Reykjavíkur á dögunum. Gallakjólar og aðrar flíkur úr efninu verða áberandi í vor.
Útlit Heiðu má segja sé svolítið rokkað en hún klæddist svörtum leðurstígvélum við. Kjóllinn er úr Zöru og kostar 7.995 krónur. Hann er úr 97% bómull og er með 3% af teygju fyrir aukin þægindi. Kjóllinn er aðsniðinn, ryktur og hnepptur alla leið niður. Kjóllinn nær rétt niður fyrir hné.
Buxna- og skyrtusett í sama efni var til hjá versluninni en seldist hratt upp. Enn eru til nokkur eintök af kjólnum fyrir þær sem hafa orðið fyrir innblæstri af Heiðu Björgu.
Í vor verður mikið um dökkblátt, ljósblátt og ljósgrátt gallaefni. Á tískupöllunum var það stíliserað frá toppi til táar, jakkar við hnésíð pils eða þröngir aðsniðnir kjólar hjá Ganni, Schiaparelli og Acne Studios.