Með hverri árstíð koma nýir litir sem verða meira ríkjandi en aðrir í tískuvöruverslunum. Taktu eftir þessum litum fyrir vorið.
Litafyrirtækið Pantone gefur út lit ársins á hverju ári og á liturinn að endurspegla tískustrauma og tíðaranda hvers árs fyrir sig þvert á lönd og þjóðir. Þeir sem velja lit ársins eru stórt net hönnuða og litasérfræðinga á vegum fyrirtækisins. Litur ársins 2025 er mokkamús og er honum strax farið að bregða fyrir í fatnaði hjá stærstu tískuhúsum heims. Liturinn er blanda af ljósu súkkulaði og kaffi og tekur við af dökkbrúna litnum sem var vinsæll á síðasta ári.
Ef fólk er orðið leitt á drapp- og kamellitum sem hafa verið þeir vinsælustu síðustu ár þá skal taka eftir þeim smjörgula. Hann hefur læðst fram á sjónarsvið tískunnar síðustu árstíðir og er ekki á förum. Þetta er ekki gulur, sem margir hræðast, heldur mjög daufur tónn af honum. Það er auðvelt að klæðast honum og hann fer vel með mörgum öðrum litum.
Liturinn er um það bil helmingsblanda af appelsínugulum og rauðum og verður áberandi með vorinu, í sumar og fram á haust. Tómatrauður kom bæði fram í fylgihlutum, fatnaði og mynstri á tískupöllunum og er hann fallegur við sólkyssta húð.
Grái liturinn stendur sjaldan fyrir sumarið heldur er hann oftast tengdur við hlutleysi, leiðindi, háan aldur og lítillæti. Hins vegar verður þetta einn aðallitur ársins og notaður á móti öðrum líflegri litum eða alveg frá toppi til táar eins og sást hjá Gucci og Max Mara. Það er fín tilbreyting frá svarta litnum og gefur fágað útlit.