„Það var einstaklega gaman að farða hana Guðrúnu um helgina, enda öflug og glæsileg kona og virkilega skemmtilegt að taka þátt í þessu með henni. Það er margt sem þarf að hafa í huga þegar kemur að því að farða fyrir viðburði sem standa yfir í langan tíma, undir ljósum og verið að taka myndir og viðtöl,“ segir Steinunn Edda Steingrímsdóttir förðunarfræðingur sem átti heiðurinn af förðun Guðrúnar Hafstseinsdóttir nýkjörins formanns Sjálfstæðisflokksins.
„Ég byrjaði á því að undirbúa húðina vel með góðum raka og ljóma, undir augun notaði ég uppáhaldið mitt, augnpúða frá IROHA sem draga úr þrota, dökkum baugum og fínum línum á augnsvæðinu. Púðarnir innihalda meðal annars níasínamíð, peptíð og koffein sem gefur manni orkuna sem þarf inni í daginn. Augnpúðarnir gefa líka góðan raka og augnsvæðið verður unglegra og bjartara. Ég elska að nota augnpúða þegar ég er að farða sérstaklega þar sem að ég byrja alltaf á augunum og þá er í raun tvöföld virkni í púðunum á meðan, gera mann frísklegri og grípa í leiðinni augnskugga eða vöru sem gæti fallið niður á meðan svo húðin er hrein og tilbúin undir,“ segir Steinunn Edda.
Hún notaði Rimmel Multi-Tasker All day Grip sem er primer.
„Til að grunna húðina notaði ég meðal annars dásamlegan primer frá Rimmel. Primerinn er með vegan formúlu sem undirbýr húðina einstaklega vel fyrir förðun, en einnig er hægt að nota primerinn án farða sem rakakrem. Það sem að ég elska hvað mest við þennan primer er að hann stíflar ekki svitaholurnar svo að hann hentar öllum, einnig gefur hann húðinni sléttara yfirbragð. Primerinn inniheldur C-vítamín og hýalúronsýru,“ segir hún.
Steinunn Edda nefnir Rimmel Multi Tasker – better than filter sem er hennar uppáhaldsvara um þessar mundir.
„Þetta er vara sem er hægt að nota á svo marga vegu, hreinlega eftir dagsformi eða hvaða lúkki er verið að reyna að ná. Þetta er ljómi sem gefur smá „hulu“ hægt að nota sem farðagrunn, blandað í dagkremið eða sett yfir farðann fyrir aukinn ljóma.“
Hún blandaði Better than filter við primerinn til að áferðin yrði ekki of ljómandi.
„Húðin þarf að vera aðeins mattari þegar verið er að taka ljósmyndir og sjónvarpsviðtöl.“
Steinunn Edda segist alltaf byrja á því að skyggja andlitið áður en hún setur farða og hyljara. og nefnir Max Factor Miracle Pure Bronzer sem hún notar mikið.
„Þessi bronzer er stórkostlegur í nákvæmlega þetta verkefni enda til í tveimur litatónum. Ég set vöruna inn í lófann á mér og nudda burstanum uppúr vörunni til að „bræða“ hana þá rennur hún á húðina eins og silki og blandast einstaklega vel,“ segir hún. Hún notaði Max Factor Miracle Pure Foundation farðann á andlitið.
„Ég elska þennan farða sem gefur hálfgerða „photoshop“ áferð á húðina, 2 in 1 serum formúla ásamt farða sem veitir miðlungs þekju og jafnar húðlit, gefur náttúrulega þekju og satín matta áferð.“
„Guðrún er ekki hrædd við kinnalit og er heldur betur með kinnbeinin til að bera flottan kinnalit. Ég notaði litinn Wild Card frá Rimmel sem er fallega bleikur litur með köldum undirtón sem draga fram bláa litinn í augunum. Kinnaliturinn er mattur og gefur einstaklega fallegan roða.“
Steinunn Edda segir að hyljari skipti máli þegar förðun á að endast eins lengi og hægt er og valdi Rimmel Multi-Task Concealer.
„Þessi þétti hyljari bregst manni ekki á ögurstundu og ég elska að grípa í hann. Létt og fitulaus formúla smitast ekki, með svampbursta sem hjálpar til góða þekju. Hyljarinn gefur raka í allt að 24 klukkutíma og er vatnsheldur,“ segir hún.
Nú var komið að augabrúnum.
„Guðrún er með fallegar, vel mótaðar og þéttar augabrúnir svo ég notaði mjóan augabrúnablýant til að fylla örlítið inní þar sem þurfti og gefa fyllingu. Ég notaði Max Factor Brow Shaper í litnum Deep Brown. Þessir blýantar eru æðislega þægilegir þar sem blýanturinn er grannur svo það er auðvelt að teikna hár og fylla inn í án þess að gera of mikið, einnig er greiða á endanum sem hjálpar til við að blanda litinn svo að hann falli náttúrulega inn í augabrúnirnar. Það er fátt sem ég elska meira en gott augabrúnagel og það sem varð fyrir valinu í þetta skiptir heitir Brow Glow og er nýjung frá merkinu Beautylash by Refectocil.“
Til að skyggja andlitið notaði Steinunn Edda sólarpúðrið Max Factor Facefinity Bronzer sem hún setti einnig í globuslínuna á augunum til að fá náttúrulega skyggingu.
„Yfir augnlokið notaði ég mattan ljósan augnskugga og skyggði svo undir augun og globus með sólarpúðri. Ég notaði Max Factor Kohl Pencil Brown til að skerpa á rótinni hjá augnhárunum og til að gefa létt eyelinerlúkk notaði ég dökkbrúnan kolablýant sem er auðvelt að blanda. Ég notaði svo vatnsheldan maskara til að tryggja það að augnhárin héldust uppbrett allan daginn og til að passa upp á það að maskarinn væri ekkert að smitast til eða klessast þegar að hann hitnaði í sterku ljósunum. Litlaust matt púður var svo borið á ásamt setting spreyi til að hámarka endingu förðunarinnar.“
Max Factor Lipliner Mauve Moment varablýanturinn var settur á varir Guðrúnar og svo var þetta toppað með glossi.
„Að lokum er nauðsynlegt að fullkomna lúkkið með fallegum nöglum og notaði ég því vinsælasta OPI litinn Bubble Bath á hana,“ segir Steinunn Edda.