Þórhildur Þorkelsdóttir hefur í nægu að snúast þessa daganna. Hún er framkvæmdastjóri hjá Brú Strategy ásamt því að vera dagskrárgerðarkona og hlaðvarpsstjórnandi. Hún er alltaf hrikalega flott til fara, en hún segist hafa haft áhuga á tísku lengi.
„Ég hef pælt í tísku og klæðaburði fólks frá því að ég man eftir mér. Ég er alin upp í sveit þar sem ég dundaði mér oft tímunum saman við að púsla saman dressum úr skápnum hjá mömmu og setja upp tískusýningar. Þessi áhugi hefur alltaf fylgt mér en sérstaklega elska ég að fylgjast með götutísku og hvernig ólíkt fólk klæðir sig. Tískan er skemmtilegasta tjáningarformið.“
Hvernig myndirðu lýsa fatastílnum þínum?
„Í dag myndi ég lýsa honum sem frekar kvenlegum og klassískum en með góðu vintage - twisti. Þegar ég var yngri átti ég það talsvert til að hoppa á hin og þessi trend og pæla kannski ekki mikið í notagildinu en í seinni tíð reyni ég að taka gæði fram yfir magn og pæli frekar mikið í góðum efnum og sniðum. Ég er með reglu um að reyna að eiga alls ekki of mikið í fataskápnum mínum og spara frekar og velja mér svo færri og vandaðri hluti.“
Áttu þér uppáhaldsbúðir eða merki?
„Hér heima er uppáhaldsfatabúðin mín klárlega Andrá Reykjavík og þar eru mín uppáhaldsmerki, The Garment, Stine Goya, Gestuz, Agolde og fleiri. Ég vann sjálf í vintage verslun í mörg ár og vinkonur mínar segja að ég sé með svarta beltið í að „thrifta“ enda hef ég gert mjög mikið af því í gegnum tíðina. Mér finnst það vera ákveðin hugleiðsla að fá mér góðan kaffibolla og rölta í vintage eða resell verslanir og gramsa, en þessa dagana úrvalið af þeim mjög gott á Íslandi. Hringekjan er í miklu uppáhaldi hjá mér og þar finn ég alltaf eitthvað. Ég elska líka að thrifta á netinu og ég eltist við vintage hönnunargersemar á hinum og þessum síðum eins og The Real Real, Depop, Ebay og jafnvel Facebook Marketplace. Ég hef ná að gera alveg fáranlega góð kaup með þessum hætti.“
Hvar verslaðu mest?
„Ég versla orðið mjög mikið á netinu. Það er þægilegt að skrolla og fá yfirsýn yfir úrvalið áður en maður kaupir eitthvað og svo er þjónustan víða orðin það góð að varan er komin inn um lúguna næsta dag, og oftast er auðvelt að skila. Ég fagna mjög þessum tímabæru framförum í póstþjónustu! Annars finnst mér líka mjög gaman að kíkja í búðir í útlöndum í góðu tómi, en það er líka sérstakt áhugamál hjá mér að elta uppi góða flóamarkaði í þeim löndum sem ég ferðast til. Þar gerast lang skemmtilegustu kaupin.“
Hvert sækirðu tískuinnblástur?
„Fæ mikinn innblástur frá vinkonum mínum en ég skoða líka mikið tískutengt efni á Instagram og TikTok. Algorythminn þar veit hvað ég vil sjá.“
Málarðu þig mikið dags daglega eða þegar þú ferð fínt út?
„Ég mála mig oftast létt áður en ég fer út í daginn og er langmest fyrir náttúrulega förðun. Ég hef líka áhuga á góðum húðvörum og hef komið mér upp ansi góðri rútínu í þeim málum. Ég er með nokkur góð og fljótleg förðunartrix sem ég lærði af sminkunum í sjónvarpinu þegar ég vann þar sem koma sér mjög vel þegar ég fer eitthvað fínna, t.d. að nota sólarpúður sem augnskugga og að setja á mig augnblýant með væng á núll einni. Svo er gott varakombó lykilatriði.“
Hvaða fylgihluti notar þú mest?
„Ég er mikið fyrir belti og á orðið gott safn af þeim til að brjóta upp einfalt dress og nota t.d. yfir jakka. Ég elska líka sólgleraugu hvernig sem viðrar. Góð taska er svo alltaf punkturinn yfir i-ið.“
Áttu þér uppáhaldsflík?
„Það er líklega Aftur ullarkápa sem ég hafði haft augastað á mjög lengi en hún kom í takmörkuðu upplagi og var ófáanleg. Þegar ég hafði gefið upp alla von um að eignast kápuna, sá ég hana fyrir tilviljun til sölu á Visteyri í fullkomnu ástandi. Ég hef aldrei verið jafn fljót að kaupa mér neina flík.“
Planarðu fram í tímann í hverju þú ætlar að klæðast eða fer fatavalið eftir skapi?
„Dagsdaglega fer það bara eftir skapi, eða veðri þann daginn. Ef ég er að fara eitthvað fínna er ég oftast búin að setja eitthvað saman í huganum fyrirfram.“
Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina?
„Já hann hefur gert það eins og hjá flestum og ég hef farið í gegnum ýmis tímabil. Einu sinni gekk ég ekki í öðru en blómakjólum og pelsum og ég tók líka ágætis skinkutímabil í denn. Með árunum hefur komist ágætis jafnvægi á þetta og ég er frekar meðvituð um hvað klæðir mig vel og passar við minn stíl.“
Hvað er á döfinni hjá þér?
„Það er alltaf nóg um að vera í vinnunni hjá Brú Strategy þar sem við aðstoðum hin ýmsu fyrirtæki við stefnumótun, markaðsmál, hönnun og almannatengsl. Eins er ýmislegt skemmtilegtí pípunum varðandi Eftirmál, hlaðvarpið sem við Nadine Guðrún Yaghi höldum úti. Svo er ég farin aðtelja niður í sumarið, en ég hef fulla trú á því að veðrið verði með okkur í liði í ár.“