Fékk innblástur fyrir fermingarveisluna úr glanstímaritum

Guðrún fór í Garðheima með móður sinni þar sem þær …
Guðrún fór í Garðheima með móður sinni þar sem þær völdu skraut til að nota í fermingarveislunni. Skrautið átti eftir að nýtast í fleiri veislum. Ljósmynd/Aðsend

Áhrifavaldurinn Guðrún Helga Sørtveit fermdist árið 2007 og minnist þess að fermingarveislan hafi verið stór og flott. Guðrún, sem er lærður förðunarfræðingur, segir að förðun sín á fermingardaginn hafi verið náttúruleg og látlaus, og sé það í samræmi við skoðanir hennar í dag.

„Þetta var stór dagur, það var mikill undirbúningur og mikil spenna. Ég fermdist 1. apríl árið 2007 í Hafnarfjarðarkirkju. Það var fyndið á þessum aldri að horfa á dagsetninguna, en presturinn hafði sagt við okkur fermingarbörnin að ef einhver myndi segja fyrsti apríl í athöfninni þá fengi sá hinn sami ekki að fermast. Ég held að það hafi enginn lagt í að gera það. Veislan mín var svo haldin í sal sem var í vinnunni hjá pabba mínum. Amma mín og afi úr föðurætt búa í Noregi og þau komu að sjálfsögðu í veisluna, klædd í norska þjóðbúninginn. Eftirminnilegasta gjöfin sem ég fékk er kross sem ég fékk frá ömmu minni, snemma á fermingardeginum, hann var mjög fallegur og ég var með hann allan daginn,“ segir Guðrún.

Áhugi Guðrúnar á tísku og útliti var kviknaður á þessum tíma.

„Ég hafði miklar skoðanir á hári, förðun og í hvernig fötum ég var, en ég var samt mjög feimin við að vera ég sjálf eins og svo margir á þessum aldri, þegar maður er að detta í táningsárin. Ég var eiginlega ekkert förðuð því mér fannst það ekki passa við mig á þessum tíma, sem ég er reyndar sammála í dag. Svo að niðurstaðan varð, smá maskari og sólarpúður. Varðandi hárið, þá vissi ég alveg hvað ég vildi en mig langaði ekki að vera eins og allar hinar stelpurnar og ég vildi hafa allt hárið til hliðar. Ég fékk að fara þarna um vorið og fá mér nokkrar ljósar strípur sem mér þótti mikið sport. Svo mátti ég ekki lita á mér hárið neitt frekar fyrr en eftir fermingu. Ég var afar ánægð með fötin sem ég var í og er það líka sérstaklega í dag þegar ég horfi til baka. Ég valdi fallegan kjól úr Spúútnik Reykjavík og ég fékk svo lánaðar ermar hjá vinkonu mömmu minnar sem var algjör tískudrottning. Mig langaði ekki að vera í hvítu eða velja það sem margar stelpur voru að velja og held að mér hafi tekist vel upp í að vera aðeins öðruvísi.“

Áhugi Guðrúnar á förðun og útliti var kviknaður þegar hún …
Áhugi Guðrúnar á förðun og útliti var kviknaður þegar hún fermdist árið 2007. Hún keypti kjólinn í Spúútnik Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

Ferð í Garðheima gaf tóninn

Guðrún hefur alltaf elskað að skreyta og undirbúa fyrir veislur.

„Ég var barnið sem dýrkaði að fara í búðir og lesa tímarit en við mamma fórum í Garðheima á fermingarsýningu og völdum skraut þar. Ég vildi hafa bleikt og blómaþema. Ég vildi ekki fermingarkerti eða merktar servíettur heldur hafa þetta frekar bara vorlegt og fallegt. Mamma hefur líka kennt mér að reyna að velja eitthvað sem hægt er að nota aftur og aftur, og endurnýta skraut. Þannig að þetta skraut var síðan mikið notað eftir ferminguna. Við lánuðum það, notuðum í afmælisveislur og alls konar. Þetta er eitthvað sem ég geri enn í dag þegar ég held einhvers konar veislu, ég endurnýti skraut eins mikið og ég get. Ég hef mjög gaman af því enn í dag að halda t.d. barnaafmæli.“

Í dag heldur Guðrún úti hlaðvarpinu Mömmulífinu ásamt Ástrós Traustadóttur og nýlega gaf Guðrún út bókina Fyrsta árið en það er bók þar sem hægt er að safna minningum frá fyrsta ári barns. „Það er margt ótrúlega spennandi að gerast á næstunni hjá mér. Fyrirtækið mitt Fyrsta árið er að stækka og ég er mjög spennt fyrir því. Síðan er ég bara spennt fyrir vorinu og sumrinu!’“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda