Jenna Huld Eysteinsdóttir húð- og kynsjúkdómalæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem glímir við óæskilegan hárvöxt á höku.
Sæl Jenna Huld.
Ég er með hárvöxt á hökunni sem plagar mig mikið. Hárin eru flest ljós og er því ekki hægt að fjarlægja þau með laser. Ég plokka mig mikið, að minnsta kosti einu sinni á dag, og finnst mjög leiðinlegt að sjá hökuna alltaf úti í sárum og með grófa áferð. Hvað er besta að gera?
Sæl og blessuð!
Það er hvimleitt að vera með ljós hár á hökunni þar sem það er einmitt ekki hægt að fjarlægja þau með háreyðingarlaser. Það er samt ýmislegt annað hægt að gera. Í svona tilfellum þar sem um ræðir bæði ljós hár og grófa áferð á húðinni notum við húðlæknar oft lyfsseðilsskylt lyf sem er í kremformi og heitir Vaniqua.
Lyfið inniheldur virka innihaldsefnið eflornitín en það dregur úr hárvexti með því að hafa áhrif á tiltekið ensím (prótín í líkamanum sem tekur þátt í hármyndun). Það þarf að nota það daglega því um leið og notkun hættir byrja hárin aftur að vaxa. Annar valkostur er að gera reglulega rakstur á húðinni með beittum hníf sem er hægt að kaupa sérstaklega á t.d. Amazon og kallast á ensku „dermaplaning“.
Það að hárvöxtur verði meiri við rakstur og það komi grófari húð á eftir á er mýta og því algjörlega óhætt að raka varlega þessu fínu hár reglulega. Ekki skemmir fyrir að þú ert á sama tíma að fjarlægja dauðar húðfrumur af húðinni og þá í rauninni að framkvæma þína eigin húðslípun heima fyrir. Að fjarlægja dauðar húðfrumur af yfirborði húðarinnar greiðir bæði leiðina fyrir húðvörurnar þínar inn í húðina og bætir einnig útlit húðarinnar. Slærð tvær flugur í einu höggi. Mikilvægt er að nota hnífsblaðið í 45 gráðum og fara varlega til að erta ekki húðina of mikið og nota góð krem eftir á til að mýkja upp húðina og bæta varnarlag húðarinnar.
Vona að þetta hjálpi og gangi þér vel,
Jenna Huld Eysteinsdóttir,
Húð- og kynsjúkdómalæknir, MD, PhD
Húðlæknastöðin
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Jennu Huld spurningu HÉR