Það var á Óskarsverðlaunahátíðinni fyrr á þessu ári sem stórleikarinn Timothée Chalamet mætti á rauða dregilinn klæddur smjörgulum leðurfatnaði frá toppi til táar. Þar með staðfesti hann einn heitasta lit ársins: smjörgulan. Fötin voru sérsaumuð á Chalamet hjá franska tískuhúsinu Givenchy. Nýr listrænn stjórnandi Givenchy er hin enska Sarah Burton sem hóf störf í september á síðasta ári.
Nú á tískuvikunni í París sýndi hún fyrstu línuna sína sem er fyrir haustið 2025. Fyrsta flíkin sem birtist sýningargestum var hin fallegasta leðurkápa í smjörgulum lit.
Síðasta sumar varð liturinn orðinn áberandi og spáðu helstu tískufjölmiðlar heims því að hann tæki við af kamelbrúna litnum. Sú spá hefur ræst.
Þetta er litur sem margir hafa eflaust tengt við páskana. Nú er þetta hins vegar orðinn einn mest áberandi liturinn í tískuheiminum og tími til að aftengja hann frá páskaunganum. Þessi litur verður út um allt í vor, sumar og áfram inn í haustið.
Í vor- og sumarlínum tískuhúsanna Givenchy, Chanel, Chloé, Totéme og Stellu McCartney var gullfallegur fatnaður í litnum sendur niður tískupallana.
Þetta er ekki gulur, sem margir hræðast, heldur mjög daufur tónn af honum. Smjörgulur passar vel við svart og aðra gula tóna. Þeir sem óttast litinn geta tónað hann niður og fjárfest í flíkum sem eru aðeins meira út í kremlitaðan.
Fatnaður í þessum dásamlega lit er farinn að streyma inn í verslanir. Vertu vakandi á næstunni.