Sara Kamban er tvítug Laugardalsmær sem hefur mikinn áhuga á tísku. Hún stundar nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og vinnur bæði í tískuvöruversluninni Húrra Reykjavík og í félagsmiðstöð samhliða náminu. Sara er með persónulegan fatastíl og veit upp á hár hvað er fram undan í tískunni.
Þegar kemur að fatastíl lýsir Sara sínum sem elevated basic, frá degi til dags klæðist hún klassískum og stílhreinum fötum sem hún gerir svo meira spennandi með áhugaverðum fylgihlutum eða einstökum flíkum.
„Ég er mikið að vinna með skyrtur og góðar gallabuxur eða jakkafatabuxur. Svo poppa ég outfittin upp með fylgihlutum og skemmtilegum flíkum sem gefa lúkkinu smá karakter. Ég elska líka að dressa mig upp fyrir tilefni og setja saman töff lúkk eða að klæðast fallegum kjólum.’’
Einn fylgihlutur sem hún hefur notað mikið upp á síðkastið er vínrauð leðurtaska sem hún fann á leðurmarkaði í Flórens.
„Mér finnst liturinn svo skemmtilegur og hann passar við allt! Ég hef líka verið að elska hvíta pelsinn minn sem ég keypti notaðan á Regn-appinu. Þetta tvennt finnst mér líka fara mjög vel saman,“ segir hún.
Aðspurð um uppáhaldsflíkina þessa dagana er svar Söru skýrt.
„Svarta Eytys-kápan mín. Það er svo auðvelt að klæða hana bæði upp og niður. Um leið og ég hendi mér í hana finnst mér ég strax verða meiri skvís.“
Hins vegar á hún einnig afar hjartfólgna flík sem mamma hennar hannaði:
„Allra uppáhaldsflíkin mín hlýtur samt að vera fallegi siffon-kjóllinn sem mamma mín hannaði,“ segir hún.
Sara hefur fylgst vel með því sem er að gerast í tískunni og spáir því að nokkur trend muni setja svip sinn á árið 2025.
„Mér finnst ég vera að sjá fjölbreytt trend á árinu. Ég held að denim on denim muni halda áfram að njóta sín á árinu. Stór belti og „fringe“ eru að koma sterk inn, smá svona kúreka vibe. Síðan held ég að það verði í tísku að para saman flíkur sem eiga ekki endilega heima saman eins og til dæmis íþróttabuxur við hæla eða loafers! Ég hef verið að sjá mikið af prjóni, alls konar skemmtilegar útfærslur af prjónuðum peysum, treflum og lambhúshettum.’’
Hins vegar telur hún að við munum sjá minna af ofur-víðum buxum og meira af aðsniðnari fötum.
Sara hefur ákveðna skoðun á hröðum tískubylgjum. „Ég vil í raun sjá færri trend þannig að persónulegi stíll fólks fái að njóta sín betur!“
Hún bendir á að örtrend, eða microtrends, poppi upp nánast daglega, sem getur verið yfirþyrmandi.
„Trend og tískubylgjur eru auðvitað ekkert að fara neitt og geta verið mjög skemmtileg, en það getur líka verið smá hausverkur að sjá nýtt microtrend koma inn annan hvern dag. Engin boð og bönn og meiri fjölbreytni í fataskápnum er eitthvað sem ég ætla að tileinka mér á árinu.“
Sara segir að hún finni mikinn mun á tísku á Íslandi og í útlöndum, sérstaklega í stórborgum Evrópu.
„Tískan úti, sérstaklega í stórborgum Evrópu, er fjölbreyttari. Ég finn það sjálf að ég er tilbúin að taka fleiri sénsa þegar ég er að klæða mig upp í útlöndum,“ segir hún.
Hún tekur þó fram að Íslendingar séu alveg með tískuna á hreinu og að hún eigi marga vini með einstakan fatastíl sem hún lítur upp til.
Eitt það eftirminnilegasta tískutrend sem Sara hefur tekið þátt í var þegar hún fékk innblástur frá Hailey Bieber og mætti í jakkafötum af kærasta sínum sem voru þar með of stór á hana í búningapartí.
„Ég elskaði lúkkið og væri til í að vinna meira með jakkafötin.“
Hvernig finnur þú jafnvægið á milli þess að fylgja tískustraumum og viðhalda sínum einstaka stíl?
„Þegar ég kaupi mér föt reyni ég alltaf að velja flíkur sem hafa mikið notagildi og endast vel. Mér finnst mikilvægt að eiga góðan grunn í fataskápnum – föt sem henta við ýmis tilefni og ég get alltaf gripið í. Með þessu næ ég að halda í minn persónulega stíl en samt fylgja tískunni að einhverju leyti,“ segir hún.
Hvað varðar uppáhaldsmerki þá nefnir Sara tískumerkið Isabel Marant, þá sérstaklega eldri línur frá 2009 – 2012 og einnig fylgist hún vel með danska merkinu Opera Sport. Eins dásamar hún mömmu sína, sem er fatahönnuður og hennar helsta fyrirmynd í tískuheiminum.
„Annars er allra uppáhaldshönnuðurinn minn mamma mín sem stofnaði fatamerkið sitt Royal Extreme árið 2009 en setti það til hliðar nokkrum árum seinna. Í dag er hún stödd í Flórens í mastersnámi í fatahönnun og eltir drauminn. Hún er klárlega fyrirmyndin mín í tískuheiminum, enda ótrúlega hæfileikarík og best í að stíla mig upp!“
Aðspurð hvaða fataskáp hún myndi helst vilja skipta á við í einn dag, átti Sara ekki í neinum vafa.
„Ég tæki fataskápinn hjá vini mínum Sverri Inga. Hann er að læra fatahönnun í LHÍ og á endalaust fallegar og einstakar flíkur. Ég er ekki lengi að hringja í Sverri þegar mig vantar hjálp við að stíla upp lúkk eða þegar mig vantar flík í láni.“