Ljósar yfirhafnir voru áberandi á ríkisráðsfundi á Bessastöðum sem fór fram um helgina. Mikið hefur gustað um ríkisstjórnina síðustu daga vegna mála Ásthildar Lóu Þórsdóttur, fráfarandi mennta- og barnamálaráðherra. Þrátt fyrir það virðist ríkisstjórnin ekki ætla að láta rokið hafa áhrif og vona að vorið færi þeim bjartari veður og betri fréttir.
Það voru þær Kristrún Frostadóttir, Hanna Katrín Friðriksson og Alma Möller sem mættu og klæddu sig í takt við bjartsýnistilfinningarnar og klæddust ljósbrúnum yfirhöfnum. Kristrún valdi sér ljósan rykfrakka sem er skyldueign í hvern fataskáp og er létt yfirhöfn. Hanna Katrín klæddist stuttum jakka úr leðri eða leðurlíki og Alma valdi sér einnig stuttan ljósan jakka með kraga. Jakki Ölmu var fínlegastur en hún hneppti honum alveg upp að hálsi.
Ljósar yfirhafnir eru áberandi í verslunum núna og eru þær til í mörgum útgáfum. Rykfrakka Kristrúnar er hægt að nota á mismunandi hátt en fer sérstaklega vel með ljósum gallabuxum. Það er mikið notagildi í stuttum jökkum eins og Hanna Katrín og Alma klæðast en þá má nota við buxur, pils og yfir kjóla.
Hér fyrir neðan eru hugmyndir að svipuðum jökkum fyrir aðra í eins bjartsýniskasti og ríkisstjórnin.