Seljandi brúðarkjóls á uppboðsvefsíðunni Ebay segist vera með brúðarkjól Melaniu Trump til sölu. Seljandinn segist hafa keypt kjólinn á rúmlega níu milljónir króna til að klæðast í hennar eigin brúðkaupi árið 2010 en vill selja kjólinn á fjóra og hálfa milljón króna.
Kjóllinn sem Trump klæddist árið 2005 var sérsaumaður á hana af fatahönnuðinum John Galliano. Kjóllinn vó 30 kg og kostaði rúmlega 13 milljónir króna. Kjóllinn er hlýralaus, skreyttur glitrandi steinum og með íburðarmiklu pilsi.
„Christian Dior brúðarkjóll hannaður af John Galliano fyrir Melaniu Trump fyrir brúðkaup hennar og Donalds Trumps forseta Bandaríkjanna,“ segir í lýsingunni á kjólnum á Ebay.
„Það tók yfir 500 klukkustundir að sauma kjólinn sem er skreyttur Swarovski-kristöllum.“
Kjóllinn sem er til sölu á Ebay virðist þó ansi frábrugðinn þeim sem Trump gifti sig í. Seljandinn segist hins vegar hafa þurft að breyta honum mikið og víkka hann.
„Melania var stærð 0-2 svo ég varð að víkka kjólinn upp í stærð 4-6. Ég setti aukalag af satínefni og bróderaði aukamynstrum á toppinn. Ég lét einnig bæta við hlýrum.“
Talsmenn Trump segja brúðarkjólinn vera í geymslu í híbýlum þeirra hjóna í Mar-A-Lago í Flórída og því sé þetta ekki sami kjóll.