Notar efni frá fínustu verslun Mílanó

Berglind kynnir fatamerkið á Hönnunarmars en hún er búsett í …
Berglind kynnir fatamerkið á Hönnunarmars en hún er búsett í Mílanó.

Berglind Óskarsdóttir fatahönnuður stofnaði barnafatamerkið Bibi & Bella árið 2019 í Mílanó á Ítalíu. Fyrstu viðtökurnar voru góðar og seldist allur lagerinn fljótt upp. Stuttu síðar hófst heimsfaraldurinn og Berglind ákvað að hvíla merkið í svolítinn tíma. Síðasta haust tók hún þá ákvörðun að endurvekja merkið og verður hún með innsetningu í versluninni Evu á Laugavegi meðan á Hönnunarmars stendur. Þar má búast við að sjá skrautlegar flíkur sem saumaðar eru eftir sérpöntun á yngstu kynslóðina.

„Ég er svakalega glysgjörn. Ég ætlaði alltaf að verða gullsmiður en ég komst ekki inn. Ég var mjög vonsvikin á sínum tíma,“ segir Berglind og hlær. „Ég fékk að leika mér með skartgripi ömmu minnar og elska allt sem glitrar. Ég varð að koma við öll efni og steina.“

Bibi & Bella er lúxusmerki fyrir stúlkur á aldrinum 4-12 ára. Merkið býður upp á yfirhafnir og fylgihluti úr hágæðaefnum. Markmiðið er að skapa tímalausar og draumkenndar flíkur sem bæði endast og erfast. Innblástur Berglindar kemur frá dúkkulísum, eldri skartgripum, ítölskum lúxus og gömlum ævintýrum.

„Dóttir mín var lítil, ég var nýskriðin úr námi og farin að hugsa hvað mig langaði að gera í framhaldinu. Ég hafði verið að skoða markaðinn og fannst stóru merkin vera farin að bæta við sig svona fatalínum og mér fannst þetta áhugaverð nálgun fyrir mig,“ segir Berglind.

„Við kynntum merkið með opnun í Mílanó sem gekk mjög vel. Allt seldist upp sem ég átti á lager. En tveimur mánuðum síðar kom heimsfaraldurinn og þá var fólk ekkert að fara neitt fínt. Aðrir hlutir komu í kjölfarið og ég ákvað að setja þetta á smá pásu.“

Berglind kynnir fatamerkið á Hönnunarmars.
Berglind kynnir fatamerkið á Hönnunarmars. Ljósmynd/Saga Sig

Ekki tilbúin að loka þessum kafla

Berglind hóf störf við markaðssetningu hjá skartgripafyrirtæki í millitíðinni. Hún segir það hafa verið mikinn lærdóm og þar hafi hún fengið að kynnast annarri hlið.

„En þetta var alltaf að kalla á mig til baka og mig langaði að klára hugmyndina, mér fannst ég ekki búin með þetta. Ég ákvað svo að endurvekja þetta,“ segir Berglind.

Berglind býr enn þann dag í dag ásamt fjölskyldunni í Mílanó. „Við erum enn hér úti og höfum verið í níu ár. Við fluttum upphaflega út vegna námsins míns og hér er ég enn. Börnin eru líka í sínum skólum og líður vel,” segir hún. „Ég fæ oft spurninguna um hvenær ég ætli að flytja heim. Ég veit það er með góðum huga gert,“ bætir hún við hlæjandi.

Síðasta haust ákvað Berglind ásamt klæðskeranum Lauru Bellati að koma Bibi & Bellu aftur í gang. Fötin frá merkinu eru aðallega fínar yfirhafnir fyrir sérstök tilefni með skrautlegum bróderingum, handsaumuðu skrauti á flíkurnar og fylgihluti.

„Við vinnum eins og klæðskerar, hönnunarferlið fer í gegnum mig en Laura saumar þetta óaðfinnanlega. Það skiptir mig miklu máli að velja gæði fram yfir magn og með sérpöntunum skapast persónuleg nálgun við kúnnann.“

„Ég er svakalega glysgjörn. Ég ætlaði alltaf að verða gullsmiður …
„Ég er svakalega glysgjörn. Ég ætlaði alltaf að verða gullsmiður en ég komst ekki inn. Ég var mjög vonsvikin á sínum tíma.“ Ljósmynd/Saga Sig

Eftirsóttir Swarovski-steinar

Hverju má fólk búast við frá þér á Hönnunarmars? „Ég verð með nýja og eldri stíla til sýnis eins og skikkjukápur, kápur og fylgihluti,“ svarar Berglind.

Einnig verður hægt að sérpanta flíkur frá Bibi & Bellu. „Sem stendur er þetta sniðið að hverjum og einum.“

Fyrir hvaða tilefni hefur fólk verið að versla frá ykkur?

„Undanfarið hefur verið vinsælt að panta föt fyrir brúðkaup. Við erum að fá pantanir frá Mílanó, Íslandi og Frakklandi.“

Það hjálpar til að vera staðsettur í einni af tískuborgum heims að mati Berglindar því aðgengið að góðum efnum gæti varla verið betra.

„Við verslum efni við eina fínustu efnabúð Mílanó. Allir steinar sem við notum í bróderingar eru Swarovski-steinar sem eru orðnir mjög eftirsóttir núna. Það er slegist um þessa steina. Ég versla þá í pínulítilli efnabúð þar sem þeir eru verndaðir eins og gull og það er alltaf gaman að fara þangað,“ segir Berglind.

Hver eru framtíðaráformin? „Halda áfram að reyna að stækka þetta litla ástríðuverkefni mitt. Við ætlum að vera lengur úti og einbeita okkur að núinu.“

Opnunarboð verður þann 3. apríl frá kl. 18-20 í versluninni Evu á Laugavegi.

„Við kynntum merkið með opnun í Mílanó sem gekk mjög …
„Við kynntum merkið með opnun í Mílanó sem gekk mjög vel. Allt seldist upp sem ég átti á lager." Ljósmynd/Saga Sig
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda