Kári Sverrisson ljósmyndari myndaði nýverið forsíðu taílensku útgáfu tískutímaritsins ELLE. Í tökunni voru skartgripir frá Louis Vuitton og Cartier og þurfti þaulþjálfaða öryggisverði til að vernda góssið á meðan tökum stóð.
„Ég hef unnið fyrir ELLE nokkrum sinnum og tekið forsíður áður en í þetta skipti þá var það stílisti sem hafði samband og spurði hvort ég gæti komið til Parísar í kringum tískuvikuna og myndað fræga leikkonu og fyrirsætu. Það er auðvitað aldrei tryggt að þetta sé forsíðuefni. Við mynduðum heilan myndaþátt á götum Parísar og í stúdíói. Við gáfum þeim nokkra forsíðuvæna möguleika og þau hjá Louis Vuitton og ELLE voru það ánægð að ein þeirra rataði á forsíðuna. Það er auðvitað mikill heiður,“ segir Kári.
Kári er sjálfstætt starfandi ljósmyndari og er með meistaragráðu í ljósmyndun frá breska listaháskólanum London College of Fashion. Hann segist elska allt sem er myndrænt og hefur mikla þörf fyrir að skapa. Hann nýtur þess að ferðast og gerir það mikið vegna starfsins.
„Ég er búsettur á Íslandi og í Barselóna. Ég sæki innblástur í hitann og til Barselóna. Þar er hægari taktur og ég næ að einbeita mér betur þegar kemur að tölvuvinnunni. Þar gefst tími til að skipuleggja og klára allt sem ég get gert á netinu. Svo kem ég heim í hverjum mánuði í vinnutörn. Ég ferðast mjög mikið vegna vinnu og vinn í rauninni út um allan heim. En ég elska líka að vinna á Íslandi og er með mjög skemmtileg verkefni í gangi í hverjum mánuði. Verkefnin úti eru öðruvísi, stórar herferðir og tískumyndaþættir,“ segir hann.
Geturðu sagt frá tökunni?
„Það var mjög mikill hraði. Við byrjuðum að mynda klukkan 11 og vorum búin að mynda klukkan fjögur seinnipartinn. Þetta var mjög skemmtilegt en mikið stress. Við mynduðum fyrstu lúkkin í stúdíóinu því við vorum með mjög dýra skartgripi frá Louis Vuitton og Cartier. Sumir skartgripanna kostuðu rúmlega tvær milljónir evra og þurfti öryggisverði til að gæta þeirra. Nokkri verðir biðu fyrir utan og hinir voru inni á meðan tökum stóð,“ útskýrir Kári.
„Við máttum ekki fara með skartgripina út á götu vegna þess hve dýrir þeir eru. Þetta var mikið ævintýri og mikið af fólki sem kom að tökunni. Þarna var fólk frá Louis Vuitton sem urðu að samþykkja allt sem ég gerði og komu með ábendingar ef þurfti. Takan var styrkt af þeim og þá mikilvægt að þau væru ánægð með það sem við vorum að gera.“
Hefur þú mikla stjórn í svona stórum verkefnum?
„Eitthvað, já. Ég stjórna til dæmis hverjir vinna með mér, á hvaða tökustöðum við myndum og svo vel ég myndirnar sem við látum vinna.“
Hvert er stærsta verkefnið þitt hingað til?
„Það var MAC Cosmetics-herferð sem var birt út um allan heim. Eucerin-herferðirnar sem ég hef myndað hafa líka verið mjög stórar og birtar nánast í öllum löndum um allan heim. Það er risastórt og myndirnar hafa meira að segja birst á litla Íslandi.“
Er ekki gríðarlega erfitt að koma sér áfram í þessum bransa?
„Já, það er erfitt. Ég hef oft verið nálægt því að gefast upp en á sama tíma ekki. Ég hef haldið fast í þá hugsjón sem ég er með og hún er svolítið þannig að þeir hæfustu lifa af í þessum bransa. Það er fullt af hæfileikaríku fólki en svo margir sem gefast upp. Þeir sem komast sem lengst eru þeir sem aldrei gefast upp og halda áfram, aðlaga sig aðstæðum og því sem er í gangi. Það eru margir að keppast um verkefnin en það þarf að kunna að markaðssetja sjálfan þig. Ég er í raun ákveðinn karakter á samfélagsmiðlum og þar næ ég í ný verkefni. Maður þarf að vera mjög duglegur í þessu ef maður vill komast langt.“