Öryggisverðir vernduðu skartgripina í töku Kára

Kári Sverrisson myndar um allan heim og nú síðast á …
Kári Sverrisson myndar um allan heim og nú síðast á götum Parísar fyrir Elle og Louis Vuitton. Samsett mynd

Kári Sverris­son ljós­mynd­ari myndaði ný­verið forsíðu taí­lensku út­gáfu tísku­tíma­rits­ins ELLE. Í tök­unni voru skart­grip­ir frá Lou­is Vuitt­on og Cartier og þurfti þaulþjálfaða ör­ygg­is­verði til að vernda góssið á meðan tök­um stóð.

„Ég hef unnið fyr­ir ELLE nokkr­um sinn­um og tekið forsíður áður en í þetta skipti þá var það stílisti sem hafði sam­band og spurði hvort ég gæti komið til Par­ís­ar í kring­um tísku­vik­una og myndað fræga leik­konu og fyr­ir­sætu. Það er auðvitað aldrei tryggt að þetta sé forsíðuefni. Við mynduðum heil­an myndaþátt á göt­um Par­ís­ar og í stúd­íói. Við gáf­um þeim nokkra forsíðuvæna mögu­leika og þau hjá Lou­is Vuitt­on og ELLE voru það ánægð að ein þeirra rataði á forsíðuna. Það er auðvitað mik­ill heiður,“ seg­ir Kári.

Kári er sjálf­stætt starf­andi ljós­mynd­ari og er með meist­ara­gráðu í ljós­mynd­un frá breska lista­há­skól­an­um London Col­l­e­ge of Fashi­on. Hann seg­ist elska allt sem er mynd­rænt og hef­ur mikla þörf fyr­ir að skapa. Hann nýt­ur þess að ferðast og ger­ir það mikið vegna starfs­ins.

„Ég er bú­sett­ur á Íslandi og í Bar­sel­óna. Ég sæki inn­blást­ur í hit­ann og til Bar­sel­óna. Þar er hæg­ari takt­ur og ég næ að ein­beita mér bet­ur þegar kem­ur að tölvu­vinn­unni. Þar gefst tími til að skipu­leggja og klára allt sem ég get gert á net­inu. Svo kem ég heim í hverj­um mánuði í vinnutörn. Ég ferðast mjög mikið vegna vinnu og vinn í raun­inni út um all­an heim. En ég elska líka að vinna á Íslandi og er með mjög skemmti­leg verk­efni í gangi í hverj­um mánuði. Verk­efn­in úti eru öðru­vísi, stór­ar her­ferðir og tísku­myndaþætt­ir,“ seg­ir hann.

Lífverðir vöktuðu skartgripina.
Líf­verðir vöktuðu skart­grip­ina. Ljós­mynd/Ú​r einka­safni

Eng­ir skart­grip­ir úti á götu

Get­urðu sagt frá tök­unni?

„Það var mjög mik­ill hraði. Við byrjuðum að mynda klukk­an 11 og vor­um búin að mynda klukk­an fjög­ur seinnipart­inn. Þetta var mjög skemmti­legt en mikið stress. Við mynduðum fyrstu lúkk­in í stúd­íó­inu því við vor­um með mjög dýra skart­gripi frá Lou­is Vuitt­on og Cartier. Sum­ir skart­grip­anna kostuðu rúm­lega tvær millj­ón­ir evra og þurfti ör­ygg­is­verði til að gæta þeirra. Nokkri verðir biðu fyr­ir utan og hinir voru inni á meðan tök­um stóð,“ út­skýr­ir Kári.

„Við mátt­um ekki fara með skart­grip­ina út á götu vegna þess hve dýr­ir þeir eru. Þetta var mikið æv­in­týri og mikið af fólki sem kom að tök­unni. Þarna var fólk frá Lou­is Vuitt­on sem urðu að samþykkja allt sem ég gerði og komu með ábend­ing­ar ef þurfti. Tak­an var styrkt af þeim og þá mik­il­vægt að þau væru ánægð með það sem við vor­um að gera.“

Hef­ur þú mikla stjórn í svona stór­um verk­efn­um?

„Eitt­hvað, já. Ég stjórna til dæm­is hverj­ir vinna með mér, á hvaða töku­stöðum við mynd­um og svo vel ég mynd­irn­ar sem við lát­um vinna.“

Takan fór fram á götum Parísar og í stúdíói.
Tak­an fór fram á göt­um Par­ís­ar og í stúd­íói. Ljós­mynd/Ú​r einka­safni

Þeir hæf­ustu lifa af

Hvert er stærsta verk­efnið þitt hingað til?

„Það var MAC Cos­metics-her­ferð sem var birt út um all­an heim. Eucer­in-her­ferðirn­ar sem ég hef myndað hafa líka verið mjög stór­ar og birt­ar nán­ast í öll­um lönd­um um all­an heim. Það er risa­stórt og mynd­irn­ar hafa meira að segja birst á litla Íslandi.“

Er ekki gríðarlega erfitt að koma sér áfram í þess­um bransa?

„Já, það er erfitt. Ég hef oft verið ná­lægt því að gef­ast upp en á sama tíma ekki. Ég hef haldið fast í þá hug­sjón sem ég er með og hún er svo­lítið þannig að þeir hæf­ustu lifa af í þess­um bransa. Það er fullt af hæfi­leika­ríku fólki en svo marg­ir sem gef­ast upp. Þeir sem kom­ast sem lengst eru þeir sem aldrei gef­ast upp og halda áfram, aðlaga sig aðstæðum og því sem er í gangi. Það eru marg­ir að kepp­ast um verk­efn­in en það þarf að kunna að markaðssetja sjálf­an þig. Ég er í raun ákveðinn karakt­er á sam­fé­lags­miðlum og þar næ ég í ný verk­efni. Maður þarf að vera mjög dug­leg­ur í þessu ef maður vill kom­ast langt.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda