Allra augu beinast að Höllu Tómasdóttur forseta Íslands og eiginmanni hennar Birni Skúlasyni í tilefni opinberrar heimsóknar þeirra til Noregs.
Hjónunum var vel tekið við norsku konungshöllina fyrr í dag af Hákoni krónprins og Mette-Marit krónprinsessu Noregs.
Halla Tómasdóttir klæddist ljósum hnésíðum kjól, mynstruðum silkiklút eins og hefur verið hennar einkennismerki, og kremlituðum jakka yfir úr brocade-efni.
Brocade-efni er lúxusefni sem notað er við fínustu tilefni. Upphaflega voru slík efni ofin úr silki en í dag er þeim oft blandað við gerviefni til að styrkja þau. Það sem einkennir brocade-efnin er að þó að mynstrið sé ofið ofan í efnið þá stendur það samt út og er í annarri áferð og stundum í öðrum lit. Þessi efni hafa yfirleitt gljáa, glitur eða satínáferð.
Brocade-efni hefur verið kallað rósasilki en það er vísun í rósamynstrið sem hefur einkennt þessar flíkur frá upphafi.
Skór Höllu stóðu upp úr en þeir eru frá íslenska fylgihlutamerkinu Kalda. Skórnir eru klassískir frá merkinu, heita Peki og eru með snákaskinnsmynstri. Skórnir koma í mörgum mismunandi litaútgáfum en skór Höllu fara vel með ljósu fötunum.
Skórnir kosta 54.800 krónur á vefsíðu Kalda.
Smartland vakti athygli á skóbúnaði Björns í opinberri heimsókn forsetahjónanna til Kaupmannahafnar í ágúst á síðasta ári. Þar klæddist hann dökkbláum jakkafötum, blárri skyrtu og brúnum skóm.
Nú klæðist hann svörtum jakkafötum, svartri skyrtu við svarta vel pússaða skó. Bindið var mynstrað með hvítum doppum sem braut upp á heildarútlitið.