Halla Tómasdóttir forseti Íslands geislaði í dökkbláum síðkjól á hátíðarkvöldverði norsku konungshallarinnar. Konungshjónin í Noregi buðu til kvöldverðarins af því tilefni að Halla og eiginmaður hennar Björn Skúlason eru þar í heimsókn.
Kjóll Höllu er frá Jenny Packham. Packham er einn virtasti fatahönnuður Bretlands og er þekkt fyrir fágaðan klæðnað, aðallega kjóla, til að nota við fínni tilefni. Kjóll Höllu í kvöld var dökkblár að lit með ermum sem náðu rétt fyrir neðan olnboga. Ermarnar voru útvíðar sem gera sniðið mjög elegant.
Hálsmálið var það fallegasta við kjólinn en það var skreytt glitrandi steinum sem dregur athyglina að andlitinu. Kjóllinn var aðsniðinn, síður niður í gólf og pilsið örlítið vítt í takt við ermarnar.
Hár Höllu var tekið aftur sem dró athyglina enn betur að hálsmáli kjólsins.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Halla kýs Jenny Packham við svona tilefni en á hátíðarkvöldverði í dönsku konungshöllinni á síðasta ári skartaði hún gylltum síðkjól frá merkinu.
Kjólar frá Jenny Packham hafa verið vinsælir á rauða dreglinum og við fínustu tilefni síðustu ár og hafa stjörnur á borð við Kate Winslet, Katrín prinsessa og Emily Blunt klæðst merkinu.