Vorið er komið með bjartara veðri og nýjum fatnaði. Vortískan er fjölbreytt að þessu sinni og ættu flestir að geta fundið sér eitthvað við sitt hæfi. Það sem stendur helst upp úr eru ofurkonudragtir, praktískir jakkar, drungaleg bóhemföt og hlýrabolir með U-hálsmáli.
Hlýrabolur er flík sem leynist í öllum fataskápum en hefur yfirleitt verið í hlutverki aukaleikarans. Nú er það breytt. Hlýrabolir með U-hálsmáli, helst hvítir, voru mjög áberandi hjá tískuhúsum eins og Dior, Stellu McCartney og Rabanne. Þá voru þeir helst stíliseraðir við fínni pils eða víðar buxur.
Það hefur verið svolítill gotneskur fílingur í tískuheiminum í svolítinn tíma. Frjálslyndur en dökkur bóhemklæðnaður fyrir næsta vor var áberandi á tískupöllunum hjá tískuhúsum eins og Saint Laurent, Chloé, Rodarte og Valentino. Þetta kom fram í svörtu blúnduefni, dökkum blómamynstruðum kjólum og síðum pilsum. Leðurjökkum í stórri stærð var síðan skellt yfir.
Íþróttaheimurinn hefur haft mikil áhrif á tískuna og sáust áhrif þess vel í vor- og sumarlínunum. Praktískir jakkar frá ítölsku tískuhúsunum The Attico og Miu Miu verða eftirsóttir og án efa seljast hratt upp. Þessari bylgju fylgja aðeins þægindi og það er alveg hægt að sætta sig við það.
Buxur, blússur eða jakkar sem minna helst á skátana í ljósbrúnum eða dökkgrænum lit sáust hjá tískuhúsum eins og Hermés, Sacai, Brandon Maxwell og Mugler. Þetta eru föt sem passa við margt og hafa mikið notagildi. Ætli svona flíkur leynist ekki í fataskápnum nú þegar?
Klæðskerinn nýtur sín í nýrri dragtartísku vorsins en þar voru axlapúðar, plíseraðar buxur og jakkar í yfirstærð mjög áberandi. Hjá Saint Laurent komu margar flottar hugmyndir fram en dragtirnar voru stíliseraðar með bómullarskyrtu og bindi. Það þarf ekki að fara alla leið en jakki í þessum stíl kemur þér mjög langt.
Það er ástæða til að finna sér tilefni til að klæða sig upp í föt skreytt fjöðrum eða öðrum kristöllum. Rabanne, 16a Arlington, Prada og Louis Vuitton voru með kjóla, jakka eða pils í þessum stíl og var skrautið mjög fjölbreytt. Það má einnig alveg leika sér með þetta heima og hressa upp á eldri flíkur í leiðinni.
Köflóttar flíkur eru oftast tengdar við hausttískuna en þær koma sterkar inn nú í vor. Það er svolítill pönkarafílingur tengdur mynstrinu sem verður áberandi í kjólum eða víðum skyrtum. Leitaðu innblásturs til tískuhúsa eins og Acne Studios, Bottega Veneta og Collina Strada.