Karin Sveinsdóttir er 28 ára móðir og unnusta. Hún er sannkallaður fagurkeri en Tripp Trappstóll dóttur hennar er uppáhaldsbarnahúsgagnið á heimilinu enda mikið notaður.
Hvað ertu að fást við þessa dagana?
„Ég er mamma, vinn í leikskóla og er að klára stúdentinn.“
Hvað getur þú sagt mér um uppáhaldsmatinn þinn?
„Ég er mjög hrifin af sushi. Lambakjöt sem maðurinn minn eldar er líka í uppáhaldi.“
Hvað elskar dóttir þín að borða?
„Uppáhaldsmaturinn hennar er grjónagrautur og hún er mjög hrifin af ávöxtum.“
Áttu þér uppáhaldsveitingahús?
„Við vinkonurnar erum búnar að fara mikið á Skreið upp á síðkastið. Mjög kósí staður og góðir réttir.“
Hvernig hugsar þú um heilsuna?
„Ég reyni að borða hollt, hreyfa mig, fara í sund og göngutúra. Ég var að byrja á barre-námskeiði í Kramhúsinu sem er eiginlega skemmtilegasta hreyfing sem ég hef prófað. Ég þarf líka að hugsa vel um andlegu heilsuna og reyni að hafa ekki alltof mikið fyrir stafni og taka bara einn dag í einu.“
Ertu að safna þér fyrir húsgagni?
„Mig dreymir um alls konar húsgögn og þá sérstaklega stóla en ekkert sérstakt sem ég er að safna mér fyrir eins og er. Pinterestið mitt er fullt af húsgögnum sem væri draumur að eiga einhvern tímann í framtíðinni.“
Hvað er uppáhaldshúsgagnið sem tengist barninu?
„Tripp trapp-stóllinn hennar er mest notaður á okkar heimili. Hún elskar að dunda sér við borðstofuborðið og föndra, lita, leira og perla.“
Hvaða forrit notar þú mest í símanum þínum?
„Instagram og Messenger.“
Er eitthvert lag sérstaklega mikið í spilun hjá þér núna?
„Venus með Zöru Larsson er mjög gott „vibe“. Get hlustað á það oft í röð.“
Hvar kaupirðu helst barnaföt?
„Í Barnaloppunni. Ég elska að finna notaðar barnaflíkur á góðu verði en ég hef líka verið að versla upp á síðkastið í Yrju verslun, Polarn O' Pyret og finnst gaman að kíkja í Petit.“
Hvaða þætti ertu að horfa á núna?
„Love Island og The Office, í fjórða skiptið. Mjög ólíkt en hvort tveggja skemmtilegt.“
Hvernig skipuleggur þú daginn þinn?
„Við maðurinn minn erum með app sem heitir Family Wall í símanum þar sem við setjum inn allt sem er á döfinni hjá okkur. Annars reyni ég að skrifa lista ef það er mikið sem ég þarf að muna.“
Hvernig núllstillirðu þig?
„Fer í sund, gufu og kalda pottinn eða hef kósí með fjölskyldunni minni.“
Hvað reynir þú að forðast í lífinu?
„Neikvæðni og fólk sem kemur ekki vel fram.“
Hvaða manneskja hefur haft mest áhrif á líf þitt?
„Ég er mjög náin fjölskyldunni minni og þau hafa öll haft mismunandi áhrif. En dóttir mín er sú sem hefur haft mest áhrif á líf mitt.“