Það þykir mikil gjöf að vera smekklegur og átta sig á því hvað fötin geta gert fyrir mann. Þessir karlmenn á listanum eiga það sameiginlegt að nota fatastílinn til að tjá sig og hafa gaman að því.
Þetta eru leikarar, íþróttastjörnur, fjármálaráðgjafar og hjúkrunarfræðingar sem leggja mikið upp úr því að vera snyrtilegir til fara.
Ryan Corcuera, hjúkrunarfræðingur á taugadeild Landspítalans, er smekkmaður mikill og með afar fágaðan og klassískan fatastíl.
Hann hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlasíðunni TikTok fyrir skemmtileg myndbönd sem gefa innsýn í fjölbreytt og krefjandi starf hjúkrunarfræðinga.
Körfuknattleiksmaðurinn Kristófer Acox er þekktur fyrir að leika listir sínar nálægt körfunni, enda lykilmaður í íslenska landsliðinu og liði Vals.
Hæfileikar þessa unga manns liggja þó ekki aðeins á vellinum, en Kristófer hefur ítrekað sýnt og sannað að hann kann að velja fallegar flíkur og til þess þarf sko færni.
Leikarinn Kolbeinn Arnbjörnsson er með klassískan fatastíl. Hann er fæddur og uppalinn á Ólafsfirði og leyfir sveitastráknum gjarnan að skína í gegn með klæðaburði sínum.
Teitur Páll starfar í fjármálum og í þeim geira treystir fólk þeim betur sem snyrtilegir eru til fara. Fatastíll Teits er stílhreinn og smekklegur enda er hann þekktur fyrir að vera með allt upp á tíu. Það má líta til hans sem innblásturs þegar kemur að yfirhöfnum og flottum skyrtum.
Jens Hilmar Wessman, sonur Róberts Wessman athafnamanns og Sigríðar Ýrar Jensdóttur læknis, vekur eftirtekt hvar sem hann kemur enda ávallt með puttann á púlsinum varðandi það nýjasta í tískuheiminum.
Stofnandi og eigandi Visku Capital, Daði Kristjánsson, er mikið í ljósum fötum sem hann blandar við bláa tóna. Hann á marga flotta jakka sem hann getur notað í vinnuna þar sem hann þarf að vera snyrtilegur til fara.
Úlfar Viktor Björnsson, förðunarfræðingur, söngvari og flugþjónn, leggur mikið upp úr því að hugsa vel um útlitið og notar föt til að tjá tilfinningar sínar og líflegan persónuleika. Hann klæðist gjarnan litríkum og skemmtilegum flíkum, í litum regnbogans.
Hlauparinn Arnar Pétursson er algjör töffari og velur gjarnan þægindi fram yfir spariföt, enda alltaf á fleygiferð. Í fataskáp hans leynast þó flottar og töffaralegar flíkur sem hann tekur fram á hvíldardögum.
Jón Þorgeir Kristjánsson, jafnan kallaður Jorri, hefur lifað og hrærst í leikhúsinu um langa hríð. Hann er forstöðumaður samskipta, markaðsmála og upplifunar hjá Þjóðleikhúsinu og hefur oftar en ekki vakið athygli fyrir fágaðan og stílhreinan fatastíl.
Seðlabankastjórinn Ásgeir Jónsson á fjöldann allan af flottum jakkafötum. Hann verður auðvitað að vera snyrtilegur til fara í vinnunni og hann tekur það alla leið. Teinótt jakkaföt með vesti er hans einkennisklæðnaður og hann gleymir ekki mikilvægum fylgihlutum eins og bindi og vasaklút.
Andrean Sigurgeirsson, dansari, danshöfundur og meðstjórnandi Samtakanna ‘78, er mikill áhugamaður um tísku og er óhræddur við að fara sínar eigin leiðir þegar kemur að klæðaburði.
Hinn íslensk-hollenski Jakob van Oosterhout, rísandi stjarna í leiklistarheiminum, er með mjög skemmtilegan fatasmekk og velur gjarnan tímalausar flíkur sem eru alltaf í tísku.
Tónlistarmaðurinn og fyrrum Eurovision-keppandinn Daði Freyr Pétursson treystir á eigið innsæi þegar kemur að fatavali og hefur gaman af því að klæðast litríkum og þægilegum flíkum sem gera honum kleift að hoppa og skoppa á sviðinu.
Halldór Benjamín forstjóri Heima er mikið fyrir köflóttar flíkur, hvort sem það eru stakir jakkar eða jakkaföt. Hann er yfirleitt í ljósri skyrtu við og vesti þegar vel liggur á honum.