Tónlistarkonan Laufey Lín Jónsdóttir klæddist einu vinsælasta hátískumerki heims í dag á forsíðu tískutímaritsins WWW eða Who What Wear.
Laufey er í forsíðuviðtali í aprílútgáfu tímaritsins og fylgir því heill myndaþáttur með myndum af henni í glæsilegasta fatnaði sem völ er á. Fötin sem hún klæðist á forsíðunni eru frá franska tískuhúsinu Chloé sem er eitt það eftirsóttasta í dag eftir að nýr listrænn stjórnandi, Chemena Kamali, tók við. Kamali er talin hafa komið bóhemtískunni af stað sem verður vinsæl í sumar og áfram inn í haustið.
Fötin eru úr vor- og sumarlínu Chloé fyrir árið 2025 og eru í litskrúðugu blómamynstri. Þetta eru blússa og stuttbuxur í sama mynstri og virkar sem kjóll þegar þetta er notað saman. Stuttbuxurnar eru stuttar og líta út eins og pils en blússan er með rosalegum, draumkenndum ermum sem ná nánast að ökklum.
Við fötin klæðist Laufey ljósbláum gúmmísandölum með flötum botni. Fyrir sumarið vakti það mikla athygli að kjólar, pils og gallabuxur voru stíliseruð með flatbotna skóm eða strigaskóm. Það er þægilegt að vita það fyrir sumarið.