Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra nýttu sumardaginn fyrsta vel í sumarsól og rjómablíðu, en báðar smelltu á sig garðhönskunum og réðust í vorverkin. Þær voru hins vegar óþekkjanlegar eftir að hafa farið úr vinnufötunum. Frjálslegar og frísklegar með eindæmum.
Kristrún og Þorgerður Katrín birtu myndir af sér á Instagram-síðum sínum sem sýna þær taka til verka, skælbrosandi, er þær óskuðu landsmönnum gleðilegs sumars.
Klæðnaður Kristrúnar og Þorgerðar er frábrugðinn því sem þær kjósa að klæðast á alþingi og heldur hversdagslegri. Dökkt Primaloft-vesti varð fyrir valinu hjá Þorgerði, appelsínugult buff, líkt og Guðni Th. Jóhannesson fyrrverandi forseti sást gjarnan með, um hálsinn og ljósgrár merino-ullarbolur frá 66° Norður.
Dökk hettupeysa Kristrúnar er einnig áhugaverð en án efa sniðugt val fyrir garðvinnuna. Við hana klæddist hún moldarbrúnum buxum og svörtum gúmmístígvélum sem fást í verslunum eins og Byko eða Líflandi.
Það hefur færst í aukana að stjórnmálafólk sýni frá öðrum hliðum hins daglega lífs á samfélagsmiðlum.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þingkona Sjálfstæðisflokksins gaf til að mynda skemmtilega innsýn í ferðalag sitt til Mílanó á Ítalíu fyrr í þessum mánuði og Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, hefur verið ansi iðinn við að gera grín að gallabuxna-fíaskóinu.
Ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins, sem ber heitið Valkyrjustjórnin, tók við völdum þann 21. desember síðastliðinn.