Bandaríska verðlaunaleikkonan Demi Moore sýndi og sannaði að aldur er bara tala þegar hún gekk niður rauða dregilinn á Time 100-galakvöldinu sem haldið var í Lincoln Center í New York á fimmtudagskvöldið.
Eins og algengt er var viðburðurinn stjörnum prýddur, en meðal gesta voru stjörnuhjónin Blake Lively og Ryan Reynolds, leikkonan Scarlett Johansson, fimleikastjarnan og ólympíuverðlaunahafinn, Simone Biles, og rapparinn Snoop Dogg.
Moore, sem er 62 ára, hefur lengi vakið athygli fyrir unglegt og geislandi útlit sitt, enda lítur hún ekki út fyrir að vera degi eldri en 25 ára.
Leikkonan skein skært í ljósum síðkjól úr smiðju bandaríska fatahönnuðarins Zac Posen.
Moore, sem hreppti Golden Globe-verðlaun fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni The Substance í janúar, stelur gjarnan sviðsljósinu á rauða dreglinum í stórglæsilegum kjólum sem ýta undir náttúrulega fegurð hennar.
Moore má reglulega finna á hinum svokölluðu „best klæddu“-listum tískutímaritanna.