Dóróthea Jóhannesdóttir er nýorðin þrítug og er búsett í Kaupmannahöfn ásamt fjölskyldu sinni. Hún nýtur vorsins þar um þessar mundir, því að hún er í fæðingarorlofi og hún hefur verið dugleg síðustu misseri að sýna frá fjölskyldulífinu í Danmörku á félagsmiðlum. Það er allt frá uppskriftum til fallegra almenningsgarða og veitingahúsa og svo hefur hún einstaklega gott auga fyrir því að setja saman flíkur og sýnir iðulega frá sínum götustíl.
„Ég bý hér ásamt litlu fjölskyldu minni, það er Ari Bragi unnusti minn, Ellen Inga dóttir okkar sem er alveg að verða fimm ára og Einar Freyr, nýjasti meðlimurinn sem er rúmlega ellefu mánaða. Við höfum búið í Köben í tæp fjögur ár núna. Við fluttum út sumarið 2021, í miðjum heimsfaraldri þar sem við fundum að við vildum breyta eitthvað til og prófa að búa erlendis. Í upphafi ætluðum við bara að vera í eitt ár, en ílengdumst heldur betur og búum hér enn. Við erum mjög sátt með lífið okkar hérna úti, enda er ótrúlega gott og fjölskylduvænt að vera í Köben. Mikil útivera, lítill hraði í samfélaginu og við náum að kjarna okkur vel sem fjölskylda. Ég er með BS gráðu í sálfræði og meistaragráðu í markaðsfræði og hef verið að vinna við sölu- og markaðsmál síðustu ár.“
Hvernig myndirðu lýsa fatastílnum þínum?
„Ég myndi helst lýsa stílnum mínum sem einföldum og afslöppuðum. Ég er algjör kósý kona og mér finnst mjög mikilvægt að hafa dressið sem þægilegast, annars vill ég ekki vera í því. Dagsdaglega leita ég því mikið í þægileg joggingsett, strigaskó og fer svo í stóran blazer-jakka eða kápu yfir. Ég elska líka að klæða mig upp, sem gerist reyndar alltof sjaldan þessa daganna, þegar maður er með lítil börn, en ég er algjör kjóla týpa og er veik fyrir fallegum pelsum. Ég er einnig mjög mikið fyrir liti og fallegar litasamsetningar þegar kemur að tísku. Ég elska að klæða mig í bjarta liti en það gerir mig ósjálfrátt glaðari og frísklegri.“
Finnst þér vera mikil tískumenning í borginni?
„Það er ótrúlega mikil tískumenning í Kaupmannahöfn. Götutískan er geggjuð og finnst mér mjög skemmtilegt að sitja á kaffihúsi og fylgjast með stílnum hjá fólki sem er að labba framhjá og fá tískuinnblásturinn beint í æð. Mér finnst fólk hérna almennt mjög óhrætt við að klæðast eins og það vill, blandar ótrúlegustu flíkum og litasamsetningum saman og er oft frekar skrautlegt að mínu mati, sem ég elska, þar sem mér finnst alltaf mest heillandi þegar fólk fylgir sínum persónulega stíl.“
Hvernig er hefðbundinn dagur hjá þér?
„Núna í orlofinu, þá byrjar dagurinn þegar að strákurinn minn vaknar, sem er oftast um klukkan sex á morgnanna. Stuttu seinna vaknar svo stelpan mín og þá hefst fjörið. Það er alltaf mikið stuð á heimilinu þangað til við hjólum svo af stað með Ellen í leikskólann. Fæðingarorlofið í Köben er algjör draumur. Við erum mjög mikið úti, en það er svo þægilegt að geta bara rölt út með vagninn og þurfa ekki að vera á bíl. Við mæðgin erum dugleg að hitta aðrar íslenskar mömmur sem eru líka í orlofi, fara á kaffihús, kíkja í garðinn, rölta í miðbænum, eða skella okkur á mömmu-crossfit æfingu. Svo bara þetta hefðbundna, fara í matvörubúð og reka heimili.“
Hver er uppáhaldstími dagsins?
„Uppáhaldstími dagsins er síðan þegar við sækjum Ellen á leikskólann og dúllum okkur í rólegheitunum heim, tökum með nesti, spjöllum um allt og ekkert og komum við á ýmsum leikvöllum á leiðinni, ekta danskt! Næst er það að græja kvöldmat og koma öllum í háttinn. Kvöldin fara svo í tíma fyrir sjálfan mig, smá vinnu eða notalegheit með manninum mínum, sem endar oftar en ekki hálf sofandi yfir sjónvarpinu,“ segir Dóróthea og hlær.
Áttu þér uppáhaldsmerki eða búðir?
„Ég er mjög lítil merkjatýpa, en ég á mér nokkrar uppáhaldsverslanir, mér finnst alltaf gaman að kíkja í Arket, en þar finn ég alltaf eitthvað sem er bæði hægt að klæða upp og niður, og sem er auðvelt að para við aðrar flíkur sem ég á nú þegar til í fataskápnum.“
Eru einhver trend í gegnum tíðina sem þú hefur haldið upp á?
„Ég hef aldrei verið mikið fyrir það að elta tískutrend, heldur er ég frekar samkvæm sjálfri mér og mínum persónulega stíl þegar kemur að fatavali. Það mun alltaf fara manni lang best ef manni líður vel í fötunum og klæðir sig nákvæmlega eins og maður vill. Annars finnst mér alltaf gaman af „pop of color“ tískutrendum, að poppa upp einföld og hversdagsleg outfit með litríkum skóm eða fylgihlutum,“ segir hún.
Dóróthea segist hafa pælt í tísku og fatavali lengi en stílinn hennar var áður fyrr mjög íþróttalegur, þar sem hún stundaði frjálsar íþróttir frá unga aldri og alveg þar til að Ellen kom í heiminn, árið 2020.
„Eftir að ég eignaðist börn hef ég svo verið að uppgötva stílinn minn upp á nýtt og átta mig alltaf betur og betur á því hvað hentar mér og hvað ég fíla. Áhuginn minn á tísku jókst svo klárlega enn meira eftir að ég flutti til Köben og sá hvað tíska getur verið allskonar.“
Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
„Mér finnst skemmtilegt hvað tískan getur verið allskonar og að það séu engin boð og bönn þegar kemur að tísku. Það er gaman að sjá mismunandi stíla hjá fólki, enda er tískan algjört tjáningarform og getur sagt svo ótal margt um viðkomandi. Tískan gefur lífinu svo sannarlega lit.“
Hvað er á döfinni hjá þér þessa daganna?
„Það er bara að halda áfram að njóta í fæðingarorlofi. Tíminn líður alltof hratt og ég trúi ekki að nýfæddi strákurinn minn sé alveg að verða eins árs. Ég hef líka aðeins verið að vinna í markaðsmálum samhliða orlofinu, og er ýmislegt spennandi framundan í þeim málum. Annars er ég ótrúlega spennt fyrir komandi sumri hér í Köben sem fjögurra manna fjölskylda. Við ætlum að vera dugleg að ferðast um Danmörku og nýta sömuleiðis þann möguleika að geta keyrt yfir í önnur lönd.“