Athöfnin við að spreyja á sig ilmi, hvort sem það er ilmvatn eða rakspíri, er auðvitað ekkert sem þarf að kenna. Það er í raun mjög augljóst hvernig það er gert. Hins vegar eru nokkrar kenningar um á hvaða staði líkamans er best að spreyja lyktinni svo að hún endist sem lengst.
Það má segja að góður ilmur sé munaðarvara og þarf að vanda valið vel þegar á að fjárfesta í nýjum. Margir halda sig við sama ilminn árum saman og hafa fundið sinn einkennisilm.
En hvar er best að spreyja ilminum á sig svo að lyktin endist sem lengst?
Það þykir gott að spreyja á innanverðan úlnliðinn, fyrir aftan eyrun og á hnakkann. Ekki er mælt með því að nudda úlnliðunum saman eftir að ilmurinn er kominn á þar sem hann gæti dofnað hraðar.
Margir eru ósáttir við það að ilmurinn endist ekki yfir daginn. Þá er gott að bregða á það ráð að spreyja í hárið eða í fötin. Forðastu þó að spreyja á silki- eða satínföt þar sem það getur skilið eftir sig bletti. Sum ilmvötn gætu þurrkað hárið svo þá er betra að nota svokallaðar ilmolíur eða sprey sem innihalda vatn.
Það skiptir einnig máli að húðin sé ekki of þurr því þá endist ilmurinn mun skemur. Ilmurinn endist lengur ef honum er spreyjað ofan á rakakrem því þá gufar hann hægar upp.
Ilmir eru eins mismunandi og þeir eru margir og það fer einnig eftir efnasamsetningunni í ilminum hversu lengi lyktin endist. Það má einnig byggja upp persónulegan ilm með því að raða tveimur eða fleirum saman. Þetta þarf hins vegar að fara varlega í.