Það er flík sem verður mun meira áberandi þegar Borgartúnið nálgast. Langstærsti hluti þeirra sem klæðast flíkinni eru karlmenn, þær kjósa ofurkonujakkann frekar. Þetta er algengast í svörtum lit en dökkblái liturinn er einnig feikilega vinsæll. Flíkin er létt dúnvesti, yfirleitt með Primaloft-fyllingu sem hefur einhverra hluta vegna fengið nafnið „vondukarlavestið.“
Vestið er að sumu leyti orðið einkennisbúningur karla í fjármálageiranum. Hvort sem þeir séu vondir eða góðir þá er tilgangurinn með þessum pistli ekki að skera úr um það.
Það voru ekki íslenskir fjármálasnillingar sem voru fyrstir til með þessa tískubylgju þó þeir hafi svo sannarlega tekið ástfóstri við hana. Vestið er jafn áberandi í kringum Liverpool Street í London og á Wall Street í New York og hefur verið kennt við „Finance Bro's“ á enskri tungu sem má þýða sem fjármálabrósar.
Einnig má setja spurningamerki við það hvort hægt sé að kalla þetta tískubylgju, réttara væri að tala um dvöl vestisins yfir ákveðið tískutímabil vegna þeirra fjölda ára sem vinsældir þess hafa varið. En þó að það verði að viðurkenna að sum þessara vesta eru ansi flott þá tekur leiði við þegar hlutur, flík eða jafnvel persóna nýtur of mikilla vinsælda í lengri tíma.
Það verður ekki deilt um notagildi vestisins eða praktíkina því hún er svo sannarlega til staðar. Það vita flestir að starfsmenn í þessum geira hringja fjölmörg símtöl og ná hátt í tólfþúsund skrefum á dag með því að ganga í hringi. Yfirleitt frekar stressaðir og því getur fylgt sviti. Þá er erfitt að klæðast þröngum jakkafatajakka eða ullarpeysu og betra að skella vestinu beint yfir skyrtuna. Vestinu er þó oft skipt út fínni jakka þegar mikilvægir fundir eiga sér stað en er þó aldrei langt undan. Á kaldari dögum er vestið notað undir ullarfrakka vegna einangrandi eiginleika.
Vestið er algengara á meðal þeirra sem yngri eru, eru jafnvel nýir í starfi og vilja láta taka sig alvarlega á meðal kollega sinna. Eldri og reyndari nota þessa flík eins og henni var ætlað til, í erindagjörðum sem krefst sportlegri og afslappaðri klæðnaðar.
Nú verður þeim sem vilja breyta til vandi á höndum. Ef starfsmaður fjármálafyrirtækis í Borgartúni fer í flísvesti gæti hann átt von á því að vera ruglað við starfsmann í auglýsingageiranum. Ullarvestið ætti að vera betri kostur því það minnir frekar á afann sem allir treysta. Stangveiðimenn eiga vaxborna vestið alveg svo nú flækjast málin. Það er þó aðeins meiri töffaraskapur yfir þykku dúnvestunum, ekki þeim með Primaloft-fyllingunni, þau eru hlýrri en jafnvel of hlý fyrir þá sem verður iðulega heitt í hamsi.
Best væri auðvitað að leggja vondukarlavestinu alfarið.
Blaðamaður er ekki á móti fólki í fjármálageiranum en hefur kosið að nota orðið vondukarlavesti eins oft og hægt er húmorsins vegna.