Praktík einkennir töskurnar frá vinsælustu tískuhúsum heims fyrir sumarið. Þetta voru töskur sem hægt er að geyma nánast allt sitt í tekur við af litlu töskunum sem rúma aðeins einn varalit og úr svo gæðamiklu leðri sem sér aldrei á.
Rúskinnstöskur eru enn þá áberandi eftir síðasta sumar þó að þær séu viðkvæmari en leðurtöskur og ofnar strátöskur eiga auðvitað alltaf við fyrir sumarið, sérstaklega í heitari löndum.
Hér fyrir neðan er listi yfir vinsælustu töskurnar í sumar.
Raffía eru náttúrulegar trefjar sem unnar eru úr raffíapálmatrjám. Þetta efni hefur verið gríðarlega vinsælt í sumarlegri töskur árum saman enda gefa þær töskunum suðrænt og strandarlegt útlit. Svona töskur verða vinsælar í sumar ásamt töskum úr ofnu leðri eins og sást frá Bottega Veneta, The Row og Jacquemus.
Praktískasta taskan þetta árið. Það kemst allt í hana, hún er úr þykku en mjúku leðri sem eldist vel og það er hægt að loka henni allri með rennilás. Ef svona taska er ekki í fataskápnum nú þegar þá er vel hægt að fara að réttlæta þessa fjárfestingu.
Þetta er ekki mest heillandi orðið yfir tösku en lýsandi þó. Pylsuhundurinn er rétt eins og þú ímyndar þér, mjó og löng. Það var taskan Le Teckel frá Alaia, sem þýða má sem pylsuhundinn, sem sló í gegn í fyrra og hafa önnur tískuhús nú leikið þetta útlit eftir.
Það sem verður að hafa í huga þegar fjárfest er í rúskinnstösku er það að það munu koma rispur og aðrar litabreytingar í leðrið. Þú verður að læra að fagna þeim. Fyrstu dagana muntu án efa halda á töskunni líkt og ungbarni en með tímanum róastu. Því meiri saga, því betra.
Snákaskinnsmynstur hefur nú tekið við hlébarðamynstrinu um tíma. Mynstrið sést í fötum, skóm og fylgihlutum fyrir sumarið og mun koma til að vera áberandi í töskum. Hjá Dries Van Noten komu töskurnar í öllum stærðum og gerðum en brúnt snákaskinn var allsráðandi í línunni.
Það þarf ekki allt að vera svart, ljóst eða brúnt heldur voru litríkar töskur mjög áberandi á tískupöllunum. Þessar töskur gera mikið fyrir heildarútlitið og það þarf aðeins eina tösku sem stendur út til að gera annars litlaus föt spennandi.