Halla Tómasdóttir forseti Íslands er stödd í Svíþjóð ásamt eiginmanni sínum Birni Skúlasyni í þriggja daga ríkisheimsókn. Halla var mætt í sínu fínasta pússi í formlega móttökuathöfn við Konungshöllina í Stokkhólmi í morgun.
Halla klæddist gylltri og ljósbrúnni pilsdragt úr tweed-efni. Undir dragtinni klæddist hún ljósum silkisatíntoppi með plíseruðu hálsmáli. Skórnir sem Halla klæddist voru ljósbrúnir úr lakkleðri með lágum hæl. Aukahlutirnir voru ljósbrúnn, fíngerður hattur, pappírsútgáfa af íslenska fánanum og breitt bros.
Jakkinn náði rétt niður fyrir mjaðmir. Pilsið var hnésítt.
Tweed-efni er ofið úr mörgum mismunandi þráðum og fjölbreyttri efnablöndu. Það var upphaflega notað í karlmannsjakkaföt úr ull sem kom frá Skotlandi og Írlandi. Tweed-efni úr 100% ull er mun grófara en það sem blandað er úr silki eða gerviefni eins og pólýester.
Coco Chanel, stofnandi hátískuhússins Chanel, gerði efnið að sínu og framleiddi kvenmannsdragtir úr lúxusefnablöndu úr ull og silki sem eru enn vinsælar þann dag í dag. Fyrsta Chanel tweed-dragtin var framleidd í kringum árið 1920. Svartur tweed-jakki frá Chanel hefur verið kallaður „litli svarti jakkinn“ og er draumaeign þeirra sem fylgjast með og hafa áhuga á tísku. Jakkinn er svo mikið tákn í fatahönnunarheiminum að árið 2012 var gefin út bók um hann.
Dragt Höllu er þó ekki frá franska tískuhúsinu en mörg fatamerki hanna föt í Chanel-stíl. Hún virðist þó vera mjög hrifin af efninu og hefur klæðst ótal mörgum útgáfum af tweed-jökkum frá því hún bauð sig fyrst fram til forseta Íslands.