Hildur Hafstein skartgripahönnuður og bekkjarfulltrúar í öðrum bekk í Verzlunarskóla Íslands sameinuðu krafta sína og seldu nemendum í skólanum falleg armbönd úr smiðju Hildar á peysufatadegi skólans á dögunum. Salan á armböndunum var til styrktar Minningarsjóði Bryndísar Klöru sem lést síðasta sumar eftir árás í miðbæ Reykjavíkur.
Verkefnið hófst með því að bekkjarfulltrúar höfðu samband við Hildi sem tók vel í hugmyndina.
„Ég var sjálf að sauma minn eigin þjóðbúning og hef reglulega lagt upp úr því að styrkja góð málefni,“ segir hún.
„Hugmyndavinnan fól í sér að hafa armbandið einfalt, fyrir öll kyn og með tilvísun í Verzlunarskólann og Minningarsjóðinn,“ segir Hildur og bætir við að bleik rós sé táknmynd sjóðsins.
Útkoman var fallegt armband úr sterlingssilfri í nokkrum útgáfum, silfurlitað og gyllt og með silfurskrauti eða perlu.
Allir Verzlingar á öðru ári skörtuðu svo armbandinu á peysufatadaginn þar sem þeir dönsuðu um miðbæinn, klædd þjóðbúningum og sparifötum.
Tilgangur og markmið Minningarsjóðs Bryndísar Klöru er að styðja við almannaheillaverkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni.
Sjóðurinn mun leggja áherslu á að veita styrki til fræðslu, rannsókna og verkefna til að koma í veg fyrir að slíkar hörmungar endurtaki sig.