Helen Málfríður Óttarsdóttir flutti til Lundúna fyrir fimm árum. Hún flutti til borgarinnar til að sækja listnám í hinum virta Central Saint Martins. Hún starfaði sem fyrirsæta samhliða náminu en eftir að hún lauk því hefur það orðið að hennar aðalstarfi. Hún segir tísku og fagurfræði vera hálfgerða linsu sem hún sér heiminn í gegnum.
En finnst þér tískuheimurinn yfirborðskenndur?
„Já og nei. Maður hefur séð báðar hliðar þessa bransa í gegnum verkefnin hér úti. Stundum virðist tískuheimurinn fullur af listafólki sem elskar að skapa og fatnaðurinn er list sem maður fær að klæðast. En svo hefur ég unnið verkefni fyrir hraðtískumerki þar sem list og einhverskonar dýpri pælingar eru farnar út um gluggann,“ segir hún.
Skipta föt máli?
„Já, það finnst mér. Mér finnst það endurspeglast í viðhorfinu, skapinu og hvernig þú ferð klædd inn í daginn. Mér finnst ég alltaf koma meiru í verk þegar ég er búin að taka mig til, en svo þegar ég er eins og lufsa í kósígalla þá hegða ég mér þannig. Svo fylgir því líka sjálfsöryggi þegar maður er að fíla sig í góðu útliti. Í vinnunni minni, þegar maður er að mæta í áheyrnarprufur, þá skiptir það miklu máli.“
Hversu miklu máli skiptir fatastíll og tíska þig?
„Skuggalega miklu. Ég gæti allavega eytt heilu dögunum inni á vintage-fatamarkaði, á Ebay eða Vestiare Collective að veiða einhverjar flíkur á óskalistanum.“
Hverju tekur þú eftir í klæðaburði annars fólks?
„Ég dýrka þegar fólk er bara með sitt lúkk í gangi og tekur það alla leið. Þó það sé eitthvað sem ég myndi kannski aldrei klæðast.“
Hefur staðurinn sem þú býrð á núna breytt hugsun þinni hvað varðar tísku eða fatastíl? Að hvaða leyti?
„Tískan í Lundúnum er svo ótrúlega fjölbreytt. Mér finnst ég mjög frjáls til að prófa mig áfram með flíkur og stíliseringu sem væri hérna heima líklega talið ögrandi.“
Getur fatastíll verið fráhrindandi fyrir annars aðlaðandi manneskju?
„Ég kann mikið að meta þegar fólk er vel til fara og hefur aðeins fyrir hlutunum.“
Hvenær finnst þér þú vera mest aðlaðandi?
„Þegar mér líður vel í sjálfri mér.“
Áttu mikið af einhverri sérstakri tegund af fötum?
„Ég er alltaf að setja mig í yfirhafnabann sem ég er alltaf að brjóta,“ svarar Helen.
„Ætli þetta hafi eitthvað með það að gera að ég sé frá Íslandi og hér þarf óhjákvæmilega alltaf að vera í yfirhöfn. Ég var akkúrat að falla frá þessu banni og keypti mér vintage Ralph Lauren-rúskinnsjakka í kúrekastíl á Ebay sem ég get ekki hugsað mér lífið án.“
Helen segist ekki fylgja neinum tískureglum þar sem klæðnaður eigi að vera skemmtilegur og reglulaus.
Er eitthvað sem fólk ætti að snarhætta að kaupa sér?
„Hraðtísku.“
Hver er þín allra uppáhaldsflík?
„Ég keypti vintage Wallis-kjól í London fyrir nokkrum árum sem er held ég mín allra uppáhaldsflík. Hann er úr svo fallegri mynstraðri blúndu og saumaskapurinn er ótrúlegur. Þetta er svona flík sem væri ekki gerð í dag svo mér finnst ég voðalega heppin að við fundum hvor aðra.“
Hver var fyrsta flíkin/hluturinn sem þú fjárfestir í?
„Þegar ég var þrettán ára fór ég ein jólin með mömmu og pabba til New York. Ég hafði unnið heilt sumar og átti því smá pening sem ég eyddi í pels sem ég fann í Saks á Fifth Avenue. Þessi fataveiki byrjaði sem sagt mjög snemma.
En ég lærði að það væri skynsamara að kaupa frekar eitthvað eitt og vanda valið. Það hefur verið mikilvæg lexía í mínu lífi. En svo nota ég þennan pels enn þann dag í dag og elska hann alveg jafn mikið.“
Finnst þér nærföt skipta máli?
„Já, þau gera það og alveg frekar miklu. Ég er almennt alltaf í fallegum nærfötum. Ég hef reyndar verið mjög heppin að vinna með nokkrum góðum nærfatamerkjum sem eiga til að vera gjafmild. En mér finnst það vera mjög valdeflandi og skemmtilegt að klæðast fallegum undirfatnaði sem enginn nema ég veit af og sé.“
Hvernig tjáir þú þig með klæðaburði?
„Ætli tjáningin sé ekki svolítið í undirmeðvitundinni en ég klæði mig alltaf nákvæmlega eins og mig langar í mómentinu. Mér finnst mjög erfitt að plana fyrirfram.“
Hvernig hugsar þú um líkamann?
„Ég er mjög dugleg að hreyfa mig, fer í ræktina eða einhverskonar æfingu flestalla daga. Ef það næst ekki fer ég í langan göngutúr. Hreyfing gerir mér jafn gott og að fara í sálfræðitíma. Svo er mataræðið mjög mikilvægt. Ég hef ótrúlega gaman af eldamennsku og hef mikið fyrir því að elda góðan mat. Ég reyni að fylgja einhverskonar 80/20-jafnvægi af hollustu og leyfa mér aðeins.“
Finnst þér þú eyða of miklu eða of litlu í föt?
„Guð já, ég eyði alltof miklum pening í föt. Ég verð að viðurkenna það. Þetta er eiginlega hálfgerð veiki sem ég þjáist af. En til að afsaka þessa eyðslu þá er þetta fjárfesting,“ segir hún og brosir.
Við hvern talarðu um föt?
„Almennt leita ég ekki ráða hvað varðar klæðaburð og fatakaup. Ég er mjög ákveðin í þessum efnum. En þegar ég er að reyna að réttlæta eitthvað fyrir sjálfri mér ræði ég oftast við mömmu og pabba sem eru bæði afar smekkleg.“
Ferðu í eitthvað sérstakt þegar þú vilt virðast öflugri?
„Eins og ég kom aðeins inn á með nærfötin þá finnst mér það að vera í fallegum undirfatnaði setja einhvern tón inn í daginn sem lætur mér persónulega finnast ég vera öflugri. En svo er það líka það að ef manni líður vel í því sem maður er þá geislar af manni öryggið.“
Hvaða tísku- eða förðunarráð gaf móðir þín þér sem þú ferð eftir?
„Ég tek hana móður mína alveg svakalega til fyrirmyndar í flestöllu. Hugsa að besta ráðið frá henni sé bara að eldast náttúrulega.“