„Konur í valdastöðum eru mjög traustvekjandi og hlutlausar“

Halla Tómasdóttir hefur vakið athygli fyrir klæðaburð sinn. Hér er …
Halla Tómasdóttir hefur vakið athygli fyrir klæðaburð sinn. Hér er hún ásamt bílstjóra forsetans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásdís Ósk Jó­els­dótt­ir er lektor í tex­tíl og hönn­un við Menntavís­inda­svið Há­skóla Íslands og hef­ur kennt fagið í 40 ár. Hún seg­ir frá því hvernig tísk­an tók stökk­breyt­ing­um í iðnbylt­ing­unni á 19. öld sem lagði grunn að því hvernig fólk klæðir sig í dag.

Það skipt­ir máli að fólk í valda­stöðum klæði sig hlut­laust, kon­ur með völd hér­lend­is kunna að klæða sig og það má al­veg tala um það. Kyn­tákn, kynþokki og glæsi­leiki, allt er þetta háð and­stæðum og birt­ist okk­ur á mis­mun­andi hátt í ólík­um til­gangi.

Ásdís Ósk Jóelsdóttir.
Ásdís Ósk Jó­els­dótt­ir. mbl.is/​Karítas

Þetta er viðskipta­leg fram­koma þar sem viðkom­andi er nán­ast ósýni­leg­ur. Hann er hlut­laus gagn­vart pen­ing­um annarra,“ seg­ir Ásdís Ósk Jó­els­dótt­ir, lektor í tex­tíl og hönn­un við Menntavís­inda­svið Há­skóla Íslands, þegar hún út­skýr­ir skrifaðar og óskrifaðar siðaregl­ur í klæðaburði hjá fólki í ábyrgðar­stöðum í þjóðfé­lag­inu, en fatnaður gef­ur til kynna hvaða stöðu viðkom­andi gegn­ir.

„Al­veg eins og banka­menn bera ábyrgð á pen­ing­um annarra þá bera þing­menn ábyrgð og fara með lög og regl­ur í land­inu. Þeir eiga að vera snyrti­leg­ir og hlut­laus­ir þegar þeir koma fram t.d. í sjón­varpi. Þá eru oft lista­verk sýni­leg í kring­um þá því það er auðvitað líka mik­il­vægt að þeir séu menn­ing­ar­leg­ir.“

Ásdís hef­ur kennt tex­tíl og hönn­un í 40 ár og skrifað ýmis rit um tísku; Tísku ald­anna, Sögu hönn­un­ar, Sögu fata­gerðar og fata­hönn­un­ar á Íslandi, Sjálf­bærni í tex­tíl: Neysla, nýt­ing og ný­sköp­un og Íslenska lopa­peys­an – upp­runi, saga og hönn­un. Um þess­ar mund­ir skrif­ar hún orðasafn sem nær yfir tísku, tex­tíl og fata­gerð, sem tel­ur um 3.000 orð á ís­lensku og ensku, ásamt orðskýr­ing­um á ís­lensku og teikn­ing­um.

Hún út­skýr­ir hvernig klæðnaður og ímynd verði eins og ákveðið tákn­mál og að þetta hlut­leysi sem hún vís­ar til veki traust hjá al­menn­ingi. Með hlut­laus­um klæðaburði á hún við t.d. lit jakkafata hjá karl­mönn­um sem eru gjarn­an svört, dökk­blá eða grá. Það er form­legt að vera með bindi og óform­legt að vera ekki með það og slauf­ur karl­manna eru lista­manna­væng­ur­inn í klæðaburði.

„Þú vilt ekki tala við ein­hvern í skræpótt­um fatnaði því við tengj­um glys og glamúr óá­byrg­ari ímynd. Við erum alltaf að reyna að sort­era þannig að við vit­um hvaða hlut­verki viðkom­andi gegn­ir þegar við göng­um að hon­um,“ seg­ir Ásdís um það þegar við leit­um þjón­ustu hjá fyr­ir­tækj­um eða hinu op­in­bera, þar sem traustið á að vera alls­ráðandi.

Hún bæt­ir við að brúni lit­ur­inn sé lit­ur verka­lýðsins og að á 19. öld hafi hann verið meira tengd­ur lægri stétt­um.

„Þú sérð ekki mikið brúnt nema t.d. smá brúnt í köfl­óttu efni í jakka­föt­um.“

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari. Hann …
Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir formaður Efl­ing­ar og Ástráður Har­alds­son rík­is­sátta­semj­ari. Hann er mikið að vinna með brúna liti. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Iðnbylt­ing­in sem breytti leikn­um

„Á miðöld­um giltu regl­ur um hvernig aðall­inn átti að klæðast en hins veg­ar þurfti fólk að passa að upp­hefja sig aldrei í klæðnaði miðað við þá stétt sem það fædd­ist inn í. Þú gast ekki klætt þig upp.“

Ásdís seg­ir að þá hafi gilt strang­ar regl­ur um t.d. lita­val og hverj­ir mættu klæðast hverju, sem hélst fram að iðnbylt­ing­unni.

„Helstu breyt­ing­ar á fatnaði kvenna og karla verða á 19. öld þegar iðnbylt­ing­in er kom­in á full­an snún­ing. Þá fer allt að ganga út á að selja fatnað og helst sem mest af hon­um.“

Þegar losna fór um lög og regl­ur á þess­um tíma fór yf­ir­stétt­in að herða á því að vera í há­tískufatnaði en um miðja 19. öld var fyrsta tísku­húsið stofnað í Par­ís af hönnuðinum Char­les Frederic Worth.

„Yf­ir­stétt­in lét sérsauma á sig í há­tísku­hús­un­um og þá var lögð áhersla á ríku­leg efni. Svo fer tísku­hjólið að snú­ast hraðar og við för­um inn í hraðtísku. Hjá há­tísk­unni verður það að ein­hverju leyti líka nema bara í meira ríki­dæmi.“

Á meðan al­menn­ing­ur keypti ódýr­ari eft­ir­lík­ing­ar af því sem yf­ir­stétt­in klædd­ist var yf­ir­stétt­in í því að skipta um fatnað, allt að fimm sinn­um á dag, þaðan sem mun­ur á hvers­dagsklæðnaði, óform­leg­um og form­leg­um klæðnaði kem­ur, eins og við þekkj­um nú á tím­um.

Ásdís út­skýr­ir hvernig versl­un­ar­eig­end­ur, banka­menn og menn í valda­stöðum hafi orðið klass­ísk­ari í klæðaburði, sem er grunn­ur­inn að því sem sést í dag. „Þá breytt­ist fata­flór­an og menn skreyttu sig í ríki­dæmi sínu í gegn­um klæðnað kvenna.“

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra klæðir sig í takt …
Kristrún Frosta­dótt­ir formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og for­sæt­is­ráðherra klæðir sig í takt við áhrifa­kon­ur. mbl.is/​Karítas

Regl­ur um klæðaburð eru gjarn­an varðveitt­ar hjá þeim sem eru fata­hönnuðir og iðnlærðir og sér­hanna og -sauma fatnað á fyr­ir­menni og ýms­ar vinnu­stétt­ir, að sögn Ásdís­ar.

„Há­tísk­an, eins og hún þekk­ist í dag, kem­ur frá kónga- og aðals­líf­inu í Frakklandi. Við erum ekki með aðals­fólk eins og er­lend­is, en við tök­um þátt í viðskipta­líf­inu og eig­um for­seta. Og vita­skuld end­ar tísk­an hér­lend­is á ein­hverj­um tíma­punkti.“

Heiðar Már Sigurðsson auðmaður klæddist gjarnan bláum jakkafötum fyrir bankahrun.
Heiðar Már Sig­urðsson auðmaður klædd­ist gjarn­an blá­um jakka­föt­um fyr­ir banka­hrun. mbl.is/​Krist­inn Ingvars­son

Kon­ur, ábyrgð og traust

„Al­mennt fylg­ir fólk í valda­stöðum þess­um regl­um hér­lend­is líka,“ og seg­ir Ásdís það ekki síður eiga við um kon­urn­ar.

„Kon­ur í valda­stöðum eru mjög traust­vekj­andi og hlut­laus­ar, aðeins skreytt­ari en karl­menn og get­um við tekið dæmi um t.d. ein­litar satín­blúss­ur. Ef þú ert í dragt þá ertu hlut­laus. Mér finnst kon­urn­ar hér al­mennt vera smart, flott­ar og vaxn­ar sínu starfi og ábyrgð.“ Í þessu sam­hengi nefn­ir Ásdís að sum­ar hverj­ar hafi jafn­vel ákveðin ein­kenni í klæðaburði sem vekja traust.

Þá tek­ur hún dæmi um Ölmu Möller heil­brigðisráðherra sem klæðist gjarn­an blúss­um með slaufu, Höllu Tóm­as­dótt­ur for­seta með klút­inn og Kristrúnu Frosta­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra en hún klæðist oft skyrtu eða blússu, hnepptri upp í háls, eða t.d. rúllukraga­bol.

Allt gefi þetta til­finn­ingu um að vita hvar fólk hafi viðkom­andi. „Þær eru með þetta „touch“ sem aðskil­ur þær frá öðrum og þá verður það traust­vekj­andi án þess að farið sé yfir mörk­in.“

Glæsi­leik­inn er ákveðinn mæli­kv­arði, ekki ein­ung­is á út­lit held­ur einnig á fram­komu og hve mál­efna­leg mann­eskj­an er. Þrátt fyr­ir hlut­leysi í klæðnaði er glæsi­leik­inn vissu­lega til staðar.

„Í ábyrgðar­stöðu get­ur glæsi­leik­inn fal­ist meira í hvað viðkom­andi seg­ir og hvernig hann held­ur sína ræðu. Þar sem meiri áhersla er á orð en út­lit, og aft­ur, út­litið er hlut­laust svo orðin kom­ist til skila,“ seg­ir Ásdís.

„Ég hugsa að all­ir sem taka þátt í póli­tísku starfi séu meðvitaðir um þetta en hvort regl­urn­ar liggi á lausu, það er ekk­ert alltaf ör­uggt. Það er ekk­ert sem almúg­inn veit.“

Coco Chanel breytti tískuheiminum þegar hún fór að hanna föt …
Coco Chanel breytti tísku­heim­in­um þegar hún fór að hanna föt úr teygju­efni. AFP

Nú eru reglu­lega gerðar grein­ing­ar á klæðnaði fólks í ábyrgðar­stöðum á Smartlandi, sér­stak­lega kvenna, sem virðist fara öf­ugt ofan í marg­an mann­inn og kon­una, af hverju held­urðu að það sé?

„Kannski finnst fólki þetta niðrandi, að verið sé að velta sér upp úr klæðaburði fólks í stað þess að hugsa um mál­efn­in. Eins og ýtt sé und­ir að mann­eskj­an sé ekki nógu traust­vekj­andi. Að mínu mati get­ur þetta verið gott, upp á að fólk sjái að kon­an geti verið klædd á ákveðinn hátt þótt hún sé í póli­tík. Karl­ar eru nátt­úru­lega alltaf bara í jakka­föt­un­um.“

Kon­ur fær­ast nær körl­um í klæðaburði (unisex)

Frá kon­um í valda­stöðum verður til­valið að fara yfir í vanga­velt­ur um hvort kon­ur hafi smám sam­an, í gegn­um tíðina, fært sig nær karl­mönn­um í klæðaburði.

Ef svo er, þá í hverju?

„Í gegn­um árin hafa alltaf verið þess­ar „unisex“-bylgj­ur, þ.e. að klæðnaður verði ekki kyntengd­ur.“ Ásdís út­skýr­ir að „unisex“-klæðnaður teng­ist oft tíma­bil­um í kven­rétt­inda­bar­áttu. „Þá fær­um við okk­ur nær karllega hlut­an­um í tísk­unni, t.d. í stóra jakka og víðar bux­ur, „overs­ized“, til að sýna að við erum jafn­víg­ar þeim.“

Af hverju get­ur kon­an ekki verið ótrú­lega kven­leg en samt verið jafn­víg karl­manni? Af hverju reyn­um við að vera eins og þeir?

Alma Möller heilbrigðisráðherra hefur afgerandi fatastíl og er þekkt fyrir …
Alma Möller heil­brigðisráðherra hef­ur af­ger­andi fata­stíl og er þekkt fyr­ir slaufu­blúss­urn­ar. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

„Til að má út mun­inn.“

Hins veg­ar seg­ir Ásdís að í stóra sam­heng­inu séu svör­in ef­laust ekki svo ein­föld því að allt eigi þetta ræt­ur í sög­unni og sam­fé­lags­leg­um at­b­urðum hverju sinni, heims­mál­um, tísku, markaðssetn­ingu o.s.frv.

„Þetta gerði Coco Chanel á 3. ára­tugn­um þegar hún hannaði þægi­leg­an og mjúk­an fatnað fyr­ir kon­ur úr vél­prjóni, sem var samt smart. Svo aft­ur í fyrri og seinni heims­styrj­öld­inni þurftu kon­ur að fara út af heim­il­un­um og ganga í störf karl­manna. Þá klædd­ust þær sam­fest­ing­um og þurftu að klippa hárið svo það fest­ist ekki í vél­un­um. Eft­ir stóð þessi strákaklipp­ing og bein form og sniðleysi í fatnaði.“

Á upp­gangs­ár­un­um eft­ir síðari heims­styrj­öld­ina, hjá '68-kyn­slóðinni, kom aft­ur þessi „unisex“-tíska, að sögn Ásdís­ar, svo að oft var erfiðara að sjá hvort um karl eða konu væri að ræða og átti það bæði við um hipp­ana og í heimi há­tísk­unn­ar.

„Það hef­ur bara sýnt sig að það er vald­efl­andi fyr­ir kon­ur að færa sig nær körl­um í klæðaburði. Það er ákveðið tákn­mál. Kon­an öðlast ábyrgð og virðingu og fer inn í þetta hlut­verk, að klæðast eins og karl­maður­inn. Þeir hafa hingað til verið í þess­um fatnaði og búið þenn­an heim til. Til dæm­is hannaði há­tísku­merkið Yves Saint Laurent kvenjakka­föt á 7. og 8. ára­tugn­um, á þeim tíma þegar kon­ur voru að mennta sig meira og ganga inn í þenn­an karllæga heim, þetta voru jakka­föt, vesti og bindi, í takt við tíðarand­ann.“

Björgólfur Thor Björgólfsson auðmaður er alltaf glerfínn til fara. Hér …
Björgólf­ur Thor Björgólfs­son auðmaður er alltaf glerfínn til fara. Hér er hann í Lund­ún­um ásamt Gísla Erni Garðars­syni leik­ara og Dor­rit Moussai­eff fyrr­ver­andi for­setafrú Íslands. mbl.is/​Skapti Hall­gríms­son

Á 9. og 10. ára­tugn­um voru stór­ir axla­púðajakk­ar ríkj­andi í tísku kvenna. Þrátt fyr­ir karlleg­an ytri klæðaburð skörtuðu þær kven­lega hlut­an­um í und­irfatnaði, eins og lífstykkj­um sem voru mikið í tísku þá og eru að verða það núna aft­ur.

Sem mót­vægi við hið karllega í klæðaburði nær snyr­ti­tíska, líkt og Ásdís kall­ar það, ákveðnu há­marki líkt og nú til dags.

„Þá er kon­an í „overs­ized“-jakka­föt­um en mikið máluð og með sítt hár. Það þarf vissu­lega að hafa mikið fyr­ir síðu hári. Við erum bún­ar að útmá kven­leg­an þokka í klæðaburði, þá erum við samt að sýna hann í síðu hári, dýr­um fylgi­hlut­um og mik­illi snyrt­ingu. Það er aft­ur þessi kven­lega þving­un.“

Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins klæðist gjarnan drögtum.
Sig­ríður Mar­grét Odds­dótt­ir fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífs­ins klæðist gjarn­an drögt­um. mbl.is/​Sig­urður Bogi

Hverj­um er verið að þókn­ast?

Það má auðvitað velta fyr­ir sér hvort hin „kven­lega þving­un“ eða það að vilja snyrta sig mikið og klæða sig upp á sé fyr­ir okk­ar sjálf­ar eða aðra.

Eru kon­ur að reyna að þókn­ast öðrum?

„Kon­ur klæða sig oft upp hver fyr­ir aðra. Það er ekki ein­ung­is gert til að sýna sig fyr­ir karl­mönn­um. Þegar kona mæt­ir í sauma­klúbb­inn þá er hún svo­lítið að klæða sig fyr­ir kon­ur líka. Það er miklu frek­ar að kon­an vilji fanga at­hygli annarra kvenna, hún sýni að hún sé flott og sterk kona. Það er eins og við fáum meira út úr því en að fá at­hygli frá karl­mönn­um. Þetta er gegn­um­gang­andi hjá kon­um og stór fé­lags­leg­ur og sam­skipta­leg­ur þátt­ur. Við hefj­um upp stemn­ing­una með því að vera flott­ar til fara og það er gam­an að fá já­kvæða at­hygli frá öðrum kon­um. Karl­menn myndu ekki einu sinni þora að hrósa okk­ur, sér­stak­lega ekki eft­ir MeT­oo-hreyf­ing­una.”

Eru kynþokka­full­ar kon­ur ógn við aðrar kon­ur eða karl­menn?

„Nei, ég myndi ekki segja það. Stund­um er ein­fald­lega sagt að þú eig­ir bara að sýna það sem þú hef­ur. Hvort það sé hluti af valdi, jú, það get­ur al­veg verið það. Að ýkja út­litið get­ur al­veg verið ávinn­ing­ur fyr­ir þig í vissu sam­hengi.“

Ásdís bend­ir á „sam­fé­lags­miðlatísk­una“ þar sem kon­ur eru oft með lang­ar negl­ur, mikið málaðar og með sítt hár.

„Það er ákveðin snyrti­menn­ing í gangi og þær virðast fá mikið af fylgj­end­um út á það, þótt þær séu ekki endi­lega í glæsifatnaði, en það eru negl­urn­ar, snyrt­ing­in, hárið og skartið sem tal­ar. Stúlk­ur á sam­fé­lags­miðlum eru mjög sterk­ar. Þær eru málaðar, með flott­ar negl­ur, vel snyrt­ar og þær tjá sig, segja hvað þær hugsa, og það er líka ákveðinn styrk­leiki.“

Pamela Anderson þegar hún lék í Strandvörðum.
Pamela And­er­son þegar hún lék í Strand­vörðum.

Allt er háð and­stæðum, seg­ir Ásdís, og í því sam­hengi er rétt að nefna „ómáluðu“ tísk­una.

„Það er önn­ur týpa, sú sem er um­hverf­isþenkj­andi og vel­ur gæðaföt úr nátt­úru­efn­um og hafn­ar gervi­efn­um.“ Ásdís árétt­ar að í því fel­ist þessi nýja ímynd, að vera ekki kyn­tákn, þar sem snyr­ti­tískuímynd­inni er eytt út. „Þessi and­stæða er líka ákveðin yf­ir­lýs­ing gagn­vart karl­mönn­um.“

Þegar Ásdís minn­ist á and­stæðurn­ar er ekki vit­laust að ræða aðeins kyn­tákn 10. ára­tug­ar­ins, Pamelu And­er­son, en hún vakti mikla at­hygli og al­menn­ing­ur og fjöl­miðlar héldu ekki vatni yfir því þegar hún mætti á tísku­vik­una í Par­ís í sept­em­ber 2023 í glæsi­leg­um kjól, með ljóst hárið slegið og óförðuð eða með al­gjör­an lág­marks­farða.

„Þá er hún þessi týpa sem hugs­ar meira um nátt­úru­lega feg­urð. Hún var akkúrat and­stæðan áður fyrr, en það er ekki þar með sagt að hún sé ekki kynþokka­full með þetta „nýja út­lit“. Það kost­ar líka að líta svona vel út, að halda svona út­liti kom­in á sex­tugs­ald­ur.“

Af hverju verðum við hrifn­ari af þessu út­liti?

„Þetta er ákveðin and­tíska gegn karllæg­um öfl­um, líka gagn­vart markaðsöfl­un­um. Þú mót­mæl­ir þess­um heimi sem karl­menn hafa líka búið til, þar sem kon­ur eiga að vera brjóstagóðar, vel snyrt­ar og málaðar og allt til­heyr­andi. Þarna af­neitaði hún ein­hverju sem karl­menn hefðu frek­ar viljað sjá. Svo er þetta er stuðning­ur við um­hverf­is­sjón­ar­miðin.“

Pamela And­er­son var auðvitað aðal­stjarn­an í þátt­un­um Strand­vörðum, eða Baywatch, eins og flest­ir muna, alla­vega und­ir­rituð, sem var ung­ling­ur á þeim árum sem þætt­irn­ir voru vin­sæl­ast­ir.

„Hún átti auðvitað að vera snyrti­leg í Baywatch og þótt hún styngi sér í sjó­inn kom hún upp aft­ur með farðann í lagi og fín. Svo brýst hún út úr því og verður ákveðin ímynd þess að hún fylgi ekki feðraveld­inu held­ur sé bara hún sjálf, þessi þroskaða, flotta og sterka kona með alla sína reynslu.“

Pamela Anderson hætti að nota förðunarvörur.
Pamela And­er­son hætti að nota förðun­ar­vör­ur. AFP/​Rod­in Ecken­roth

Ásdís árétt­ar að þetta með að vera ómálaður – sem oft fel­ur í sér lág­marks­farða – gefi ákveðið vald og geti um leið orðið traust­vekj­andi, en líkt og hún benti á í upp­hafi viðtals virðist al­menn­ing­ur leita eft­ir þessu trausti.

„Svo eru það radd­irn­ar sem segja að fyrst karl­menn séu ekki málaðir af hverju þurfi kon­ur að vera það.“

Það eru þess­ar gagn­rýn­isradd­ir sem alltaf eru til staðar og hafa alltaf verið, eins og Ásdís grein­ir frá. Á meðan einn seg­ir að það sé órétt­látt að kona þurfi að mála sig er ann­ar sem seg­ir: Af hverju má kon­an ekki vera máluð án þess að það sé túlkað sem órétt­látt eða niðrandi?

Og ætli það séu ekki þess­ar and­stæður í út­liti, smekk, fata­vali og öðru sem haldi sam­fé­lag­inu gang­andi? Það sel­ur, skap­ar umræður – sem oft mættu vera mild­ari – og fær fólk til að hugsa. And­stæðurn­ar eru nauðsyn­leg­ur hluti lífs­ins því að án þeirra hefði fólk ekk­ert að tala eða hugsa um.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda