Kylie Jenner hefur að undanförnu verið að gefa svör við spurningum sem aðdáendur hennar hafa beðið eftir árum saman. Jenner er bæði orðin virkari og opnari á samfélagsmiðlum og opnaði sig nýlega um brjóstastækkun sína þar sem hún greindi frá aðgerðinni og hvað var gert.
Hvernig færðu hár Kylie Jenner
Jenner virðist hvergi nærri hætt að deila leyndarmálum sínum en á dögunum birti hún myndskeið á TikTok þar sem hún situr í hárgreiðslustólnum hjá Cherilyn Farris, hárgreiðslumeistara sem hefur einnig unnið með Hailey Bieber, Oliviu Munn og Kendall Jenner.
Í myndskeiðinu sýnir Farris skref fyrir skref hvernig ná má fram hinum eftirsóttu krullum sem Jenner hefur verið að rokka upp á síðkastið. Farris segir að lykilatriðið sé að nota mismunandi stærðir af krullujárni til að skapa fjölbreyttar og náttúrulegar krullur, svo hárið verði ekki of einsleitt.
Notar sléttujárn sem krullujárn
„Margir eiga erfitt með að ná lyftingu við skiptinguna, en sléttujárn gefur betri stjórn en krullujárn,“ segir Farris, sem notar sléttujárnið sérstaklega við andlit Jenner til að fá fullkomna mótun.
Jenner hefur síðustu ár hallast að klassískari hárstíl eftir litríkari tilraunir í fortíðinni, þar sem hún var þekkt fyrir bleikt og blátt hár. Stíllinn hefur þróast í höndum hárgreiðslumeistarans Jesus Guerrero, sem lést aðeins 34 ára gamall fyrr á þessu ári, en vann lengi með Jenner ásamt öðrum stórstjörnum.