Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins klæddist íslenska þjóðbúningnum tvo daga í þessari viku. Fyrst þann 17. júní og svo þann 19. júní. Um er að ræða 20. upphlut, pils, blússu og svuntu.
„Ég var í upphlut 20. aldar. Ég hef aldrei verið í þjóðbúningi áður og fékk lánaðan frá Þjóðdansafélagi Reykjavíkur og fékk mikla hjálp þar. Ásta sem hjálpaði mér þar, er alveg yndisleg. Ég fékk búning lánaðan fyrir 17. júní og kvenréttindadaginn 19. júní,“ segir Sanna Magdalena í samtali við Smartland. Hún fékk tvær svuntur lánaðar sem hún notaði við sitthvort tilefnið. Með því að breyta um svuntu gjörbreytist búningurinn.
Hvernig upplifun var það að klæðast íslenska þjóðbúningnum?
„Mjög vel, gaman að fá að vera fín á þessum dögum,“ segir hún.
Var þig búið að langa það lengi að skarta íslenskum þjóðbúningi?
„Ég var búin að vera leiða hugann að því að það gæti verið gaman að prófa að vera í þjóðbúningi og fékk ábendingu um að Þjóðdansfélag Reykjavíkur væri að leigja út og ákvað að slá til.“
Hún var ekki sú eina sem skartaði þjóðbúningi á 17. júní því Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri í Reykjavík klæddist 20. aldar peysufötum sem hún fékk í gjöf frá eiginmanni sínum. Fötin voru keypt hjá Oddnýju Kristjánsdóttur sem rekur fyrirtækið 7íhöggi en hún er einn helsti þjóðbúningasérfræðingur landsins.