„Ég held að margir þori ekki að segja þetta upphátt“

Rós Kristjánsdóttir er gullsmiður og eigandi skartgripamerkisins Hik & Rós …
Rós Kristjánsdóttir er gullsmiður og eigandi skartgripamerkisins Hik & Rós ásamt Helga Kristinssyni. Ljósmynd/Úr einkasafni

Rós Kristjáns­dótt­ir gullsmiður stofnaði fyr­ir­tækið Hik & Rós ásamt Helga Krist­ins­syni árið 2022 en hann var meist­ari henn­ar í nám­inu. Rós seg­ir gullsmiðasam­fé­lagið hér á landi lítið og að lang­flest­ir beri virðingu fyr­ir hönn­un annarra.

Það á því miður ekki við um alla því aug­ljós­ar eft­ir­lík­ing­ar hafa verið áber­andi í brans­an­um og hafa þau lent í því oft­ar en einu sinni að rek­ast á skart­gripi keim­líka þeirra hjá ís­lensk­um skart­gripa­hönnuðum. Hún seg­ir marga aðra ís­lenska gullsmiði deila sömu reynslu.

Hvernig verður fyr­ir­tækið til?

„Ég fékk at­vinnu­til­boð frá öðrum gullsmið og fann á mér að það var ekki það sem mig langaði að gera. Ég fór að tala um þetta við Helga, eitt leiddi af öðru og við ákváðum að stofna fyr­ir­tæki sam­an. Við unn­um vel sam­an og hann er flott­ur hönnuður og smiður,” seg­ir Rós.

Rós hef­ur alltaf haft mik­inn áhuga á skart­grip­um. „Mér finnst það mik­il tján­ing­ar­leið fyr­ir utan fatnað auðvitað, en ég tek meira eft­ir skart­grip­un­um sem fólk er með. Það seg­ir svo mikið um stíl fólks, hvort það sé með gróf­an eða fín­an smekk og mér finnst það skemmti­legt.”

Gull­smíðafer­ill Rós­ar hófst með því að hún sótti kvöld­nám­skeið í Iðnskól­an­um.

„Það var til þess að sjá hvort ég hefði þetta í mér. Ég tók þrjú nám­skeið þar sem ég mætti þris­var í viku, þar gat ég búið til möppu og sótt um. Því það eru aðeins átta manns sem eru tekn­ir inn á hverju ári,” seg­ir Rós.

Er þetta lítið sam­fé­lag?

„Já. Við erum með Fé­lag ís­lenskra gullsmiða sem flest­ir eru meðlim­ir í. Þó að það sé sam­keppni þá er þetta lítið sam­fé­lag og við reyn­um að halda okk­ur okk­ar meg­in á vell­in­um,” svar­ar hún.

Hvernig kviknaði þinn áhugi á skart­grip­um?

„Mamma var alltaf með stórt og mikið skart sem er fyndið því það er and­stæðan við minn stíl. Það var áhersla hjá henni að vera með stóra hringa og mikl­ar fest­ar, það var punkt­ur­inn yfir i-ið. En það er eng­inn skart­gripa­hönnuður eða gullsmiður í mínu lífi,” seg­ir hún.

Rós lýs­ir skart­grip­un­um sín­um sem míni­malísk­um, litl­um, fín­gerðum og fín­leg­um.

Hvaðan færðu inn­blást­ur?

„Það er alla­vega. Mér finnst bara ef ég sé eitt­hvað á ein­hverri mann­eskju get­ur það gefið mér hug­mynd­ir. Ég fæ inn­blást­ur frá sjón­varpsþátt­um og hugsa hvernig ég get út­fært skemmti­leg­ar pæl­ing­ar hjá mér,” seg­ir hún.

Markaður­inn lít­ill og sam­keppn­in hörð

Þú seg­ist hafa upp­lifað að sjá eft­ir­lík­ing­ar á ykk­ar skart­grip­um síðan þið fóruð af stað, get­urðu aðeins sagt mér meira frá því?

„Já, ég var búin að heyra að þetta hefði viðgeng­ist inn­an stétt­ar­inn­ar og af öðrum menntuðum gullsmiðum sem ættu vita bet­ur. Það er þannig að Ísland er lítið, markaður­inn er lít­ill og sam­keppn­in er hörð. Það er eig­in­lega óskrifuð regla, til dæm­is, að ef ein­hver er að gera fléttu­háls­men eða fléttu­hring sem slær í gegn, þá ferðu ekki að gera það ná­kvæm­lega sama,” seg­ir Rós.

„En við lent­um í því hjá okk­ur með dropa­háls­menið okk­ar, en það var í fyrstu lín­unni sem við gáf­um út und­ir okk­ar nafni. Drop­inn er hand­smíðaður af Helga, mótaður með þjöl og bor sem er mjög töff ferli. Svo allt í einu vor­um við far­in að sjá mjög svipuð dropa­men frá öðrum gullsmið. Það var sem sagt úr gull­húðuðu silfri og þar af leiðandi miklu ódýr­ara.

Eins og ég segi, þá erum við ekki að finna upp hjólið með að gera dropa­skart en markaður­inn er það lít­ill og bæði kjána­legt og erfitt að sjá þetta hjá ein­hverj­um öðrum á betra verði.”

Er þá eng­in virðing bor­in fyr­ir hug­viti og hönn­un? „Ég held það sé staðan. Sami hönnuður og er með drop­ana er með arm­band sem er nefnt eft­ir línu frá okk­ur, sama enska heitið og allt. Arm­bandið er öðru­vísi að því leyt­inu til að það eru fleiri hlut­ir á því og minna pláss á milli kubb­anna. En þessi aðili sem ég er að tala um, sem mér finnst vera að stela vör­um, er gull­smíðameist­ari.

Ég gæti nefnt fimm aðra gullsmiði sem þessi gullsmiður hef­ur tekið hönn­un frá.”

Hver eru aug­ljós merki um eft­ir­lík­ingu?

„Ef hlut­ur­inn lít­ur þannig út að það væri hægt að rugla því sam­an hvað hann kem­ur. Ég hef fengið nokk­ur háls­men inn á borð til mín í viðgerð, kíki á stimp­il­inn sem við merkj­um hlut­ina með og sé að þetta er ekki frá okk­ur. Mér finnst það líka gróft þegar sömu nöfn eru tek­in,” seg­ir Rós.

„Við erum ekki að finna upp skart með kubb­um en þegar við kom­um inn á markaðinn var eng­inn að gera þetta á áber­andi hátt hér á landi. Við gáf­um út línu þar sem kubb­ar eru aðal­atriðið og það kom ann­ar gullsmiður með svona stuttu seinna, eitt­hvað sem er mjög líkt og heit­ir það sama. Það finnst mér það vera skýr hönn­un­arstuld­ur. Þó svo að við get­um ekk­ert gert í því, það er erfitt að fá einka­leyfi á ein­földu formi.”

Tóku eyrna­lokka úr sölu

Rós rakst á eyrna­lokka á vefsíðu nýs ís­lensks skart­gripa­merk­is um dag­inn sem hún seg­ir skýr­asta dæmið um eft­ir­lík­ingu á þeirra vör­um. „Sá aðili er ekki menntaður gullsmiður og seg­ist ekki hafa séð lokk­ana mína neins staðar. Ég veit ekki hvort það sé satt eða ekki.

En stærðin og breidd­in er ná­kvæm­lega eins og ég hef ekki séð neinn gera svona lokka á Íslandi áður. Mér fannst það mjög gróft. En þessi aðili bauðst til að taka eyrna­lokk­ana úr sölu hjá sér, hún gerði það og meira get ég ekki beðið um,” seg­ir hún.

„Ég held að marg­ir þori ekki að segja þetta upp­hátt vegna þess hve þetta er lítið sam­fé­lag.“

Er ekki mik­il­vægt að tala um þetta, því það eru hönnuðir sem skapa eitt­hvað og svo aðrir sem sjá tæki­fær­in í því?

„Það er svo mikið feil á Íslandi, þetta er lít­ill markaður og þú hef­ur tæki­færi til að búa til eitt­hvað al­gjör­lega annað.”

Hlut­ir sem end­ast út æv­ina

Hvaða málma notið þið mest?

„Við erum mest í 14 karata gulli og eitt­hvað í silfri. Við erum ekki mikið í því að gylla því okk­ur finnst gull­húðun geta verið leiðin­leg. Hún nudd­ast af, fer af í vatni og fer illa í ís­lensku vatni. En svo vilj­um við búa til hluti sem end­ast út æv­ina,” seg­ir hún.

„Þetta er líka um­hverf­is­sjón­ar­mið, að vera ekki alltaf að kaupa sér eitt­hvað nýtt og nýtt og nýtt. Eins og þegar fólk kaup­ir sér skart­gripi af Temu og er hissa þegar fing­ur­inn verður blár, þá veit ég ekki al­veg hvernig ég á að bregðast við.”

Hún seg­ist meðvituð um að það sé ekki í boði fyr­ir alla að kaupa sér dýra skart­gripi.

„En mér finnst meiri vit­und­ar­vakn­ing í fatnaði, fólk er al­veg að kaupa sér eina vandaða flík sem kost­ar meira en fimm ódýr­ari. Ég vildi að fólk myndi yf­ir­færa þetta yfir á skart­grip­ina,” seg­ir hún.

Af hverju viltu að vekja at­hygli á þessu?

„Mitt mark­mið er að fólk velji sér að versla við iðnmenntað fólk, sem veit hvað það er að gera og hef­ur al­vöru ástríðu fyr­ir því sem það er að gera og það að græða er ekki meg­in­mark­mið.

Svo vil ég að end­ing­in sé góð. Ég vil fá kúnna inn og fimm árum seinna kem­ur hann með grip­inn og ég get gert við hann. Ég veit ná­kvæm­lega hvernig ég get gert við hann. Mig lang­ar að þetta sé eitt­hvað sem fólk á, get­ur gefið börn­um og barna­börn­um og það ger­ist ekki með hluti sem eru gerðir úr drasli,” seg­ir hún.

„Mér finnst líka að all­ir og amma þeirra séu að stofna skart­gripa­merki og selja, sem er auðvitað lög­legt og allt í lagi. En það geta all­ir klippt hár en ég myndi alltaf velja að fara til fagaðila sem er með mennt­un og veit hvað hann er að gera.”

Svo þú vilt halda utan um þetta litla gull­smíðasam­fé­lag? 

„Já þetta er lög­verndað starfs­heiti og við reyn­um að standa vörð um það. Í dag er tak­markað sem hægt er að gera með lög­um en það má vekja at­hygli á þessu og gera neyt­end­um grein fyr­ir þessu.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda