Raunveruleikamógullinn Kim Kardashian birti myndir frá nýrri auglýsingaherferð undirfatamerkisins Skims og samstarfs þeirra við ítalska fatamerkið Roberto Cavalli. Þar situr hún fyrir meðal annars ásamt móður sinni, Kris Jenner, en Kim Kardashian þykir nánast óþekkjanleg.
Kardashian skartar nýrri klippingu en hún er stuttklippt með miklar, ljósar krullur. Á myndinni er hún með þykkt rautt hárband og í hlébarðaskreyttum sundbol.
Kardashian er eigandi Skims ásamt hinum sænska Jens Grede. Fyrirtækið er í mikilli útrás og hyggst opna fleiri verslanir um allan heim á næstu árum. Skims sérhæfir sig í undirfötum, náttfötum, æfingafötum og nú sundfötum.
Tískuhúsið Roberto Cavalli er þekkt fyrir dýramynstur, flæðandi kjóla og ítalskan lúxus. Þetta samstarf mun án efa rjúka út og nú þegar er kominn langur biðlisti fólks sem vill eignast flík eða tvær úr línunni.