Franska knattspyrnustjarnan Kylian Mbappé situr fyrir í nýjustu herferð franska tískuhússins Christian Dior. Þar með fer hann aðeins út fyrir fótboltavöllinn og fetar nýjar slóðir í fyrirsætuheiminum sem nýjasta andlit fyrirtækisins.
Miklar breytingar eru í vændum hjá Dior en hinn írski Jonathan Anderson hefur tekið við öllum línum tískuhússins. Aðdáendur Anderson og Dior hafa beðið spenntir eftir því hvað hann gerir og er herferðin með Mbappé aðeins örlítið sýnishorn um það sem koma skal.
„Kylian Mbappé er rödd sinnar kynslóðar og innblástur fyrir marga í heimi íþrótta og víðar. Þessar myndir sýna þann sjarma og útgeislun sem hann býr yfir og gera hann að fullkomnu andliti fyrir tískuhúsið,“ sagði Anderson í fréttatilkynningu.