Það vakti athygli í vikunni þegar leikkonan Zendaya mætti óvænt í fataverslunina MammaMia Vintage sem er til húsa í Bergstaðastræti í Reykjavík.
Blaðamaður Smartlands heimsótti fataverslunina MammaMia Vintage sem er í eigu Anítu Bjartar Sigurjónsdóttur og Sigrúnar Guðnýjar Karlsdóttur. Þær hafa rekið verslunina í tvö ár eða frá því að þær héldu sinn fyrsta poppöpp viðburð.
Hugmyndin að versluninni kviknaði þegar þær Aníta og Sigrún bjuggu á Ítalíu og fóru reglulega á markaði í leit að flottum vintage-flíkum. Þeim fannst greinilega skorta úrval af slíku hér heima og ákváðu því að stökkva út í reksturinn.
Fyrir nokkrum árum var það ekki talið eftirsóknarvert að klæðast notuðum fötum, en nú hefur viðhorfið breyst og fólk sér tækifæri í að finna einstaka flík á góðu verði. Vintage-föt hafa því orðið gríðarlega vinsæl.
„Við fengum mjög góðar móttökur strax þegar við byrjuðum, og það er klárlega meira í tísku núna að klæðast vintage-fötum en áður fyrr,“ segir Sigrún.
Reksturinn hefur gengið frábærlega og hefur búðin vakið mikla athygli, svo mikla að heimsfrægar stjörnur eins og leikkonan Zendaya og söngkonan Addison Rae hafa meðal annars verslað í búðinni.
„Við leggjum mjög mikla vinnu í að finna flottar vörur þannig mögulega hafa þær séð okkur á samfélagsmiðlum eða einfaldlega gengið framhjá búðinni. Það er smá sjokk en ótrúlega gaman þegar svona frægt fólk kemur inn og sýnir að maður er greinilega að gera eitthvað rétt,“ segir Sigrún.
Mesta eftirspurnin er eftir Y2K-bolum, en pelsarnir hafa þó slegið rækilega í gegn og má segja að það sé einkennisflík verslunarinnar. Á sumrin eru leðurjakkarnir einnig sérstaklega vinsælir.
Þegar Sigrún er spurð um framtíðarplön MammaMia segir hún:
„Við viljum halda áfram að reka verslunina hér í bænum og okkur langar ótrúlega mikið að stefna með búðina út í heim.“