Tísku- og lífsstílsverslunin Húrra Reykjavík hefur ráðið Martein Högna Elíasson sem framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Marteinn starfaði áður hjá Íslandsbanka.
Marteinn mun stýra daglegum rekstri Húrra og leiða áfram uppbyggingu vörumerkisins sem hefur staðið yfir undanfarin ár, segir í tilkynningu Húrra á samfélagsmiðlinum Instagram.
„Gleðitíðindi frá Hverfisgötu! Það er okkur sönn ánægja að segja frá því að nýr framkvæmdastjóri hefur hafið störf hjá Húrra. Mörg ykkar þekkið hann eflaust, en það er enginn annar en Marteinn Högni Elíasson sem tekur við taumunum hjá Húrra í dag,“ segir meðal annars í tilkynningunni.
Húrra var stofnað árið 2014 af Jóni Davíð Davíðssyni og Sindra Snæ Jenssyni.